Meirihluti Pólverja styður friðarviðræður milli Úkraínu og Rússlands

Í nýlegri skoðanakönnun meðal almennings í Póllandi svarar meirihlutinn, að kominn sé tími á að Úkraína hefji friðarviðræður við Rússa. Nýleg skoðanakönnun sem United Surveys gerði fyrir fréttamiðilinn Wirtualna Polska sýnir, að 54,5% Pólverja telja, að Úkraína eigi að hefja samningaviðræður við Rússa til að binda enda á Úkraínustríðið.

Þegar spurt var hvort tími væri kominn fyrir Úkraínu að taka þátt í friðarviðræðum svöruðu 18% „ákveðið já“ og 36,5% svöruðu „frekar já.“ Stuðningur við samningaviðræður var ríkari meðal stuðningsmanna stjórnarflokkanna vinstri-frjálslyndra en þeirra sem styðja stjórnarandstöðuna.

7,1% svarenda voru eindregið á móti hugmyndinni og 19% til viðbótar sögðu „frekar nei.“ 19,4% gátu ekki gert upp hug sinn – þeir „vissu ekki“ eða „áttu erfitt með að segja.”

Vaxandi gremja almennings með langvarandi átök í Úkraínu

Könnunin, sem gerð var á tímabilinu 26.-28. júlí 2024, sýnir vaxandi stríðsþreytu meðal Pólverja. Sérfræðingar benda á, að viðhorf almennings endurspegli vaxandi gremju með langvarandi átök í Úkraínu.

Fregnir frá The Washington Post segja hins vegar, að friðarviðræður séu ólíklegar á þessari stundu. Fyrr í þessum mánuði var búist við að úkraínskar og rússneskar sendinefndir hittust í Katar til að ræða hugsanlegan samning sem miðar að því að binda enda á gagnkvæmar árásir á orkumannvirki. Árás úkraínska hersins í Kúrsk-héraði að undanförnu hefur sett þessar viðræður út af borðinu.

Bandaríska dagblaðið greindi einnig frá því að rússneskur stjórnarerindreki sem tók þátt í viðræðunum sakaði Úkraínu um að „magna“ átökin. Þó að Kreml hafi ekki útilokað framtíðarviðræður, hefur viðræðunum verið frestað í bili.

Frá 6. ágúst hafa úkraínskar hersveitir stundað hernaðaraðgerðir á rússnesku yfirráðasvæði. Að sögn hershöfðingja Úkraínu ráða hersveitir þeirra nú yfir 80 landnemabyggðum á 1.150 ferkílómetra svæði.

Á föstudaginn sagði Oleksandr Syrskyi herforingi, að aðgerðin miði áfram eins og áætlað var og búist er við að handteknum rússneskum hermönnum verði skipt út fyrir úkraínska fanga í framtíðinni.

Fara efst á síðu