Að sögn lögreglunnar í Osló eru allt of mörg rán, ofbeldi og óeirðir í kringum hraðbanka borgarinnar. Til að leysa vandann, þá vill lögreglan láta loka hraðbönkunum. Sumir meina að nær væri að losna við glæpamennina af götum borgarinnar í stað þess að losa sig við hraðbankana. NRK greinir frá.
Að undanförnu hefur verið mikið um rán, ofbeldi og fíkniefnasölu í grennd hraðbanka, sérstaklega á fjölförnum svæðum eins og í miðborg Osló. Hraðbönkum hefur fækkað mjög í Noregi enda er reiðufé aðeins notað í þremur prósentum allra viðskipta í landinu. Það eru fremst einkafyrirtæki en ekki bankarnir sjálfir sem sjá um hraðbankana. Eitt þeirra, Loomis, lokaði hraðbanka sínum við Hammerborg í Osló efir tíð rán og afbrot.
Á sama tíma vilja yfirvöld tryggja aðgengi reiðufjár í viðskiptum.
Meirihluti Stórþingsins hefur ákveðið að efla rétt þeirra sem vilja greiða fyrir vörur og þjónustu með reiðufé. Emilie Enger Mehl, dómsmálaráðherra Noregs (sjá mynd), sagði fyrr á þessu ári.
„Fólk á að vera öruggt um að það eigi fyrir greiðslunni, þegar það fer í búð, á veitingastað eða í hárgreiðslu.“
Lögreglan þreytt á ástandinu
Lasse Johnsen hjá lögreglunni í Osló hefur í mörg ár fylgst grannt með því sem er að gerast á götum höfuðborgarinnar og honum líkar ekki við það sem hann sér. Hann vill að hraðbankarnir verði fjarlægðir, – lögreglan er orðin þreytt á öllum ránum, ofbeldi og fíkniefnasölu í grennd við hraðbankana. Hann segir:
„Það eru rán, ofbeldi og óeirðir við hraðbankana, sérstaklega á fjölförnum svæðum. Hraðbankar nálægt opnu fíkniefnaumhverfi eru notaðir af bæði kaupendum og seljendum fíkniefna. Rán og ofbeldi er ekki óalgeng.“