Landsréttur Danmerkur: Ekki mismunun að krefjast handabands múslímskra nemenda

Nýlega féll dómur í Landsrétti Danmerkur í máli sem hófst árið 2019, þegar tvær múslímskar konur neituðu að taka í hendi starfsleiðbeinanda síns af því að hann var karlmaður. Í úrskurði Landsréttar segir að krafa um handaband sé ekki merki um mismunun á grundvelli trúarbragða.

Tvær múslimskar konur, kennaranemar, neituðu að taka í hönd karlkyns starfsnámsleiðbeinanda síns árið 2019. Málið vakti umræðu og komst í fréttir fjölmiðla. Skólinn krafðist að konurnar tækju í hönd starfsleiðbeinandans en Jafnréttisnefndin komst að þeirri niðurstöðu að handabandskrafa skólans væri birtingarmynd „óbeinnar mismununar á grundvelli trúarbragða og lífsskoðana.“ Því þurfti Albertslund sveitarfélag, þar sem skólinn er, að greiða hvorri konunni 25.000 danskar krónur í skaðabætur, samkvæmt Kristeligt Dagblad.

Málinu var áfrýjað til Landsréttar sem felldi dóm þann 28. maí s.l. Í tilkynningu segir að:

„Landsréttur samþykkti handabandskröfuna og sýknaði sveitarfélagið.“

Meirihluti Landsréttar komst að þeirri niðurstöðu að tilgangur handabandskröfunnar væri „að tryggja að farið væri að gildum Albertslund sveitarfélags um jafnrétti, hlutleysi og fagmennsku.“

Ekki hefur enn verið ákveðið hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Árið 2018 samþykkti ríkisstjórnin Lars Rasmussen svo kölluð handabandslög, sem kröfðust þess að umsækjendur um ríkisborgararétt beri skylda að taka í hendina á borgarstjóra eða embættismanni við athöfn þegar afhending ríkisborgararéttinda fer fram.

Síðasta sumar rak sósíaldemókratíski þingmaðurinn Ida Auken múslimskan kennaranema út af skrifstofu sinni, þegar hann neitaði að taka í höndina á henni. Hún leit á það sem skort á virðingu fyrir sér og lýðræðinu.

Fara efst á síðu