J.D. Vance: Evrópa fremur „siðmenningarsjálfsmorð“ með fjöldainnflutningum

Allt frá því að Donald J. Trump sneri aftur til Hvíta hússins hefur varaforsetinn, J.D. Vance, verið trúr stefnu Bandaríkjastjórnar og haldið uppi vörnum fyrir almenn gildi íhaldsmanna. Meðal annars hefur varaforsetinn gagnrýnt evrópska „bandamenn“ fyrir ritskoðun, stríðsáróður í Úkraínu og – í auknum mæli – hörmulega stefnu þeirra varðandi óheftan fjöldainnflutning.

Í sjónvarpsviðtali við Fox News nýlega sakaði Vance stjórnvöld í Evrópu um að fremja „siðmenningarsjálfsmorð“ með því að hafa ekki stjórn á landamærum sínum. Varaforsetinn segir að Evrópuþjóðir séu bæði „ófærar“ og „vilji ekki“ stemma stigu við endalausum straumi fólksflutninga.

The Telegraph greindi frá því, að varaforsetinn sagði:

„Evrópumenn pirra mig stundum. Já, ég er ósammála þeim um ákveðin mál.“ 

Varaforsetinn sagði að hugmyndin um vestræna siðmenningu ætti rætur sínar að rekja til Evrópu sem leiddi til stofnunar Bandaríkjanna og bætti svo við: 

„Evrópa er í hættu á að fremja siðmenningarsjálfsmorð.“

J.D.Vance beindi sérstakri gagnrýni að Þýskalandi sem var stórveldi Evrópu áður fyrr: 

„Ef við tökum fyrir land eins og Þýskaland með nokkrar milljónir innflytjenda frá löndum með algerlega ósamrýmanlega menningu, þá skiptir það litlu máli hvað mér finnst um Evrópu, Þýskaland mun tortíma sér sjálft. Ég vona að þeir geri það ekki, því ég elska Þýskaland og ég vil að Þýskaland dafni.“

Stjórn Trumps hefur gert baráttuna gegn óheftum fjölda ólöglegra innflytjenda að kjarnaatriði samkvæmt stefnunni „Bandaríkin fyrst“ – og hefur þegar sannað á sex mánuðum að fjöldaútflutningur er mögulegur og mjög gagnlegur fyrir hið vestræna samfélag.

Athugasemdir Vance enduróma það sem hann sagði í febrúar í ræðu á öryggisráðstefnunni í München að Þýskaland væri ekki vinur ef fólk er sett í fangelsi fyrir „meint tíst.“

„Hann sakaði sum lönd um að takmarka tjáningarfrelsi og nefndi Adam Smith-Connor, breskan baráttumann gegn fóstureyðingum sem var dæmdur fyrir að brjóta gegn verndarsvæði fyrir utan fóstureyðingarstöð. „Tjáningarfrelsi í Bretlandi og um alla Evrópu [er] á undanhaldi,“ sagði hann þá, áður en hann lýsti yfir stuðningi við þýska flokkinn Valkost fyrir Þýskaland, AfD, sem þýska ríkisstjórnin hefur flokkað sem öfgahóp.“

Vance er almennt talinn helsti frambjóðandi Repúblikanaflokksins til að taka við af Trump árið 2028. 

Fara efst á síðu