Ísrael gerði sprengjuárás á leiðtoga Hizbollah í Líbanon

Á þriðjudagskvöld gerðu Ísraelar árásir á skotmörk tengd Hezbollah í Beirút, höfuðborg Líbanons. Þetta eftir að hryðjuverkasamtökin sem studd eru af Íran réðust á Gólanhæðir á laugardag með þeim afleiðingum að tólf börn voru myrt.

Bæði Ísraelar og Bandaríkin hafa kennt hryðjuverkasamtökunum Hezbollah um árásina á knattspyrnuvölinn á Gólanhæðum. Hizbollah segist ekki hafa gert árásina.

Samhliða stríði Ísraela gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas, þá gæti allsherjarstríð brotist út gegn Hezbollah. Á þriðjudagskvöld lýsti varnarher Ísraels yfir ábyrgð á árásinni á skotmörk í Beirút, sem talið er að hafi verið hefndaraðgerðir fyrir árásina á Gólanhæðir laugardagsins.

„Fóru yfir rauða línu“

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, skrifar á X að Hezbollah hafi farið yfir strikið. Arabíska fréttastöðin Al-Jazeera greinir frá því, að búist sé við að Hezbollah svari árásinni.

Eftirlýstur hryðjuverkamaður

Ísraelskir fjölmiðlar greina frá því að skotmark árásarinnar hafi verið Fuad Shukr, leiðtogi Hezbollah. Hann var eftirlýstur af Bandaríkjamönnum sem hétu fimm milljón dollara verðlaunum fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku hans.

Shukr er sagður hafa borið ábyrgð á árásinni á Gólanhæðir og einnig sprengjuárás á 241 bandaríska landgönguliða í Beirút árið 1983.

Fara efst á síðu