Sænska Aftonbladet heimsótti hinn heilaga kaleik loftslagsins á Hellisheiði, þar sem Carbfix breytir koltvísýring í stein. Blaðið segir gagnrýnar raddir tala um spilaborg sem getur hrunið hvenær sem er. Blaðakonan Christina Nordh hlýddi á prófessor Sigurð Reyni Gíslason útskýra með endalausum og flóknum efnafræðiformúlum hvernig loftslagssnillingarnir ryksuga 3 þúsund tonn af koltvísýringi sem síðan er dælt niður í jörðu.
Carbfix vinnur með Demo-up Carma í Sviss sem ryksugar koltvísýring úr andrúmsloftinu og flytur á flutningabílum og með lestum til Rotterdam, þar sem flutningur fer með skipum til Íslands. Tæknin að fanga koltvísýring og geyma „Carbon capture and storage, CCS“ er gagnrýnd af mörgum. Á heimasíðu Greenpeace má lesa að „þrátt fyrir áralanga þróun og fjárfestingar, þá sé aðferðin dýr og krefjist mikillar orku.“
Samkvæmt Global Carbon Budget projects var kolefnislosun í heiminum samtals 37,4 milljarðar tonn. Samkvæmt upplýsingum Carbfix getur fyrirtækið minnkað töluna með 80 þúsund tonn ár 2025. Fyrirtækið reiknar með að stækka 2 600% á næstu tíu árum og að salan verði þá um 300 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið reynir að lokka til sín fleiri viðskiptavini sem bjargvættur loftslagsins.
Aftonbladet bendir á að Carbfix fékk 120 milljóna evru styrk frá ESB til að byggja niðurdælingarbrunna m.a. við Hafnarfjörð en íbúarnir mótmæltu. Hafnfirðingar höfnuðu staðsetningu Carbfix á niðurdælingarbrunnum sem núna á að staðsetja við Þorlákshöfn og Húsavík í staðinn. Fyrirtækið hafði mun stærri drauma en greint var frá opinberlega samanber skrif Heimildarinnar um málið. Einnig hefur komið í ljós, að allir viðskiptavinir fyrirtækisins hafa ekki svo hreinan skjöld og sagt er. Til dæmis bar fyrirtækið Arcelor Mittal ábyrgð á svartri snjókomu í grennd við verksmiðjur sínar 2018. Annað fyrirtæki, Lafarge, var dæmt fyrir brot gegn mannréttindum en fyrirtækið sendi 13 milljónir evra til heilagastríðsmanna ÍSIS í Sýrlandi 2016.
Sænska ríkisstjórnin kyndir undir ryksugu- og niðurdælingaraðferðina með fjármunum skattgreiðenda til slíkra sænskra fyrirtækja. En dökku skýin hrannast upp á fjármálahimninum. Nýlega fór rafgeymaframleiðandinn Northvolt á hausinn sem er stærsta gjaldþrot í sögu Svíþjóðar. Lífeyrissjóðir Svía hafa tapað fleir tugum milljarða sænskra króna. Sömu menn og græddu á því svindli eru einnig á bak við græna stálfyrirtækið Stegra sem búist er við að fari á hausinn án þess að framleiða eitt gramm af grænu stáli.
Græna svindlið snýst um að fá beina ríkisstyrki, ríkisábyrgð á lánum frá bönkunum, fjármagn lífeyrissjóða og síðan taka stjórnendur spilaborganna himinhá laun og koma undan peningum sem sýnd eru sem viðskipti á pappírnum. Síðan er allt keyrt í þrot og peningarnir „hverfa til peningahimnaríkisins“ eins og einn útrásarvíkinganna orðaði svo snilldarlega.
Hinn heilagi loftslagskaleikur Carbfix á Hellisheiði gæti þess vegna endað með stórum efnahagshvelli, þegar ekki fást lengur styrkir eða bankalán í keðju fyrirtækja sem koma að steingervingu kolefnisins á Íslandi.