„Ísland mun ekki bjarga heiminum með því að íslenskt samfélag flytji sig aftur á steinöld”

Fyrirsögnin er sótt í lokaorð leiðara Morgunblaðs dagsins í grein um orkumálin á Íslandi. Vísað er til raforkuspá frá Landsneti þar sem fullyrt er að búast megi við viðvarandi orkuskorti á Íslandi og sagt að undarlegt sé í landi vatnsafls og jarðhita, að fyrirtæki í orkufrekum iðnaði og rekstri þurfi að búa sig undir að halda starfseminni gangandi með jarðefnaeldsneyti. Leiðarahöfundur hittir naglann á höfuðið þegar hann skrifar: „Súpum nú seyðið af margra ár kyrrstöðu.”

Morgunblaðið gerir einnig grein fyrir könnun Gallups um aukna græna orkuöflun sem sagt er að 97% landsmanna styðja. Þetta var löngu vitað enda eru vatnsaflsvirkjanir og gufuafl með því grænasta sem gerist og Ísland var einna fremst á því sviði. Sú leið hefur orðið þjóðinni mikil lyftistöng og því enn ótrúlegra, að það skemmdarverk hafi verið unnið sem allir súpa nú seyðið af, að stöðva slíkar virkjanaframkvæmdir. Það sem kemur hins vegar ekki fram er að þær „grænu” leiðir sem mestur áróður er fyrir í dag – vindorkan – er falin í græna valkostinum. Má segja að stjórnmálin hafi stöðvað vatnsvirkjanir svo íslenskir stjórnmálamenn gætu notað tímann til að yfirgefa þrautreynda, sjálfbæra orkustefnu til að taka upp stefnu Evrópusambandsins í orkumálum sem er að drepa atvinnulíf í ríkjum sambandsins. Að reyna núna að þvinga upp á landsmenn tímaskekkju misheppnaðra vindorkuvirkjana gæti jafnvel orðið dýrara seyði en það sem orðið er vegna kyrrstöðunnar. Reynslan frá Svíþjóð sýnir milljarða tap á vindmyllum og sveitarfélögin stöðva nú hvert á fætur öðru slíkar framkvæmdir.

Stjórnmálamenn kaupa grænt mont með peningum skattgreiðenda

Vísindamenn við háskólana í Potsdam og Oxford hafa í meira en tvo áratugi skoðað um það bil 1.500 grænar orkuaðgerðir í 41 mismunandi löndum. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir, að hégómi ræður pólitískum ákvörðunum og stjórnmálamenn hafa meiri áhuga á því að monta sig í grænu sjónarspili í stað þess að framkvæma aðgerðir sem raunverulega minnkar mengun eins og til dæmis að auka notkun kjarnorku og minnka eða hætta alveg við kolanotknun.

Af 1.500 grænum verkefnum sem rannsökuð voru á árunum 1998 til 2022 má segja að aðeins brot þeirra – 63 – hafi haft veruleg áhrif á koltvísýringslosun. Hins vegar hafa allar aðgerðir haft í för með sér verulegan kostnað og aðrar neikvæðar afleiðingar fyrir almenning, skattgreiðendur og neytendur. Rannsakendur skrifa að stjórnmálamenn þeyta lúðra til að vefja sig grænni ímynd, þótt í heildina litið, þá hafi árangurinn verið hverfandi lítill eða enginn. Nicolas Koch einn af frumkvöðlum rannsóknarinnar og forstöðumaður við Mercator rannsóknarstofnunina í Berlín segir, að niðurstöðurnar sýni, að vinna „verði betur.” Hin svo kallaða græna stefna hefur leitt til meiri notkunar á kolaorku með lokun kjarnorku, þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar um hið gagnstæða. En það er mikilvægara fyrir stjórnmálamenn að flagga pólitískum rétttrúnaði á kostnað skattgreiðenda en að gera vinnuna sína.

Íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á því í hvert óefni íslensku orkumálin eru komin. Skemmdarverk hefur verið unnið með því að stöðva vatnsaflsvirkjanir á meðan verið var að aðlaga kerfið að orkustefnu Evrópusambandsins sem eyðileggur lífskjör vinnandi fólks og smáfyrirtækja.

Fara efst á síðu