Danskir stjórnmálamenn úr ólíkum flokkum eru sameinaðir í gagnrýni sinni á Svíþjóð og telja að innflytjendastefnan hafi gjörsamlega mistekist. Gagnrýnin kemur í kjölfar þess að „sænskir“ glæpamenn hafa framið mörg ofbeldisverk í Danmörku. Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, segist sammála gagnrýni Dana.
Vaxandi reiði er í Danmörku eftir að hrottalegt ofbeldi glæpahópa nágrannaríkisins hefur náð að breiðast út til Danmerkur. Landamæraeftirlitið við Svíþjóð hefur verið hert en mikil reiði ríkir meðal danskra stjórnmálamanna. Aftonbladet greinir frá því, að danskir stjórnmálamenn séu sammála í dómi sínum um að innflytjendastefna Svíþjóðar sé kolfallin.
Þegar Aftonbladet spyr sósíaldemókratíska þingmanninn, Bjørn Brandenborg, hvers vegna Svíum hafi ekki tekist að stöðva nýliðun glæpahópanna í Svíþjóð, þá svarar hann eftirfarandi:
„Ástæðurnar eru margar, ein helsta ástæðan er sjálf innflytjendastefnan. Ég held að Svíum hafi ekki tekist neitt sérlega vel í þeim málum. Við höfum líka lagt mun meira á okkur í Danmörku að láta lögregluna hafa þau tæki sem hún þarf á að halda eins og að innleiða sérstök heimsóknarsvæði.“
Meira að segja Preben Bang Henriksen frá Venstre er sammála gagnrýninni og notar tækifærið til að gagnrýna bæði borgaralega ríkisstjórn Svíþjóðar sem og fyrri kratastjórnir:
„Það er enginn vafi á því að Svíþjóð hefur mistekist. Hvorki borgaralegum né sósíaldemókratískum stjórnvöldum hefur tekist að leysa vandann. Svíþjóð er ógnvekjandi dæmi um hvernig gengur þegar of litlum tíma er eytt í innflytjendastefnuna og réttarfarskerfið.“
Dómsmálaráðherra Svíþjóðar sammála gagnrýninni
Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra Danmerkur hefur áður sagt að Danir muni „beita Svíþjóð þrýstingi.“ Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, segist sammála gagnrýni Dana. Hann skrifar í Aftonbladet:
„Ég er alfarið sammála þeirri gagnrýni sem danskir stjórnmálamenn setja fram. Svíar hafa allt of legi verið með barnalega og áhrifalausa stefnu varðandi glæpamennskuna og aðskilnaðinn. Þetta er líka ástæðan fyrir því, að við erum nú að breyta stefnunni í stórum dráttum, að miklu leyti með Danmörku sem fyrirmynd. Þetta á við allt frá refsingum og verkfærum til lögreglunnar til félagsþjónustu og forvarnarstarfs. Við herðum innflytjendastefnuna og eflum aðlögun. Það tekur tíma að snúa við margra ára óstjórn, en það mun virka ef við erum þrálát og hægjum ekki á okkur.“