Ég náði tali af þeim góða manni Arnari Þór Jónssyni mitt í öllu amstri í dag. Í glampandi sólskini fór hann út í garð til viðtalsins. Ég dáist að kjarki hans og baráttuþreki til að halda áfram þeirri vegferð sem hófst, þegar hjarta hans sagði hingað og ekki lengra og hann sagði upp vel launuðu starfi til að hefja baráttu fyrir þjóðina á ögurstundu. Reynsla hans sem forsetaframbjóðenda er honum og þjóðinni afar dýrmæt.
Hjarta Arnars slær fyrir frelsi einstaklingsins og sjálfstæða hugsun. Hann sér eins og svo margir aðrir, að spilltir stjórnmálamenn hugsa frekar um eigin persónulegan ávinning heldur en að vinna fyrir kjósendur. Í dag þýðir það hollustu við markmið alþjóðastofnana en íslenska þjóðin skilin eftir á köldum klakanum. Það er skakkur leikur sem landsmenn geta tapað. Fari fullveldið þá fara auðlindirnar líka. Pólitíski rétttrúnaðurinn ríður ekki við einteyming í fínsölum alþingis. Kerfisfólkið stjórnar og stjórnmálamenn standa ekki vaktina og eru uppteknir við hégóma og spjátrungsskap.
Auðvelt að lifa flott þegar landsmenn borga brúsann
Allt er þetta á kostnað skattgreiðenda sem sífellt fá hærri reikninga frá stjórnmálamönnum. Skriffinnskubáknið stækkar, kerfisskrímslið vex. Í ofanálag er búið að ríkisvæða stjórnmálaflokkana með ríkisstyrkjum. Lífið á jötunni er fínt, þegar aðrir borga brúsann. Þetta er sósíalismi sem á ekkert skylt við þá sjálfstæðisstefnu sem Jón Sigurðsson ásamt öðru góðu fólki veitti brautargengi og lagði grundvöllinn að efnahagslegri þróun landsmanna frá torfkofum til upphitaðra nútíma húsakynna.
Miðflokksmenn eru seinir til svara ef þeir svara þá nokkuð sem sýnir lítinn áhuga á samstarfi við Arnars Þór. Eiginlega var það tímasóun að bíða eftir svörum sem aldrei komu. En Arnar lætur það ekki á sig fá. Allt er í góðu. Núna íhugar hann stöðuna og spurningin um stofnun alvöru íhaldsflokks sem getur endurreist merki sjálfstæðisstefnunnar á Íslandi.
Bókun 35 – nagli í líkkistu fullveldisins
Arnar segir Ísland ekki þola sjö ár til viðbótar þeim sjö sem á undan voru farin. Hann bendir á bókun 35 sem versta naglann í líkkistu fullveldisins og segir að aldrei megi samþykkja, að lög annarra ráði yfir íslenskum lögum. Verði það gert mun þjóðin verða fyrir miklu tjóni, Arnar nefnir margföldun orkuverðs til neytandans á Íslandi í kjölfarið. Hann segir:
„Það hefur einmitt verið hin ódýra orka sem hefur gert okkur kleift að fá hingað fyrirtæki og skapa atvinnu fyrir landsmenn. Þetta mun fara forgörðum, þegar rafmagnsverðið hækkar. Ekki verður hægt að snúa óheillaþróuninni í orkumálum við og sæstrengur næst á dagskrá til að flytja orkuna úr landi.“
Það er merkileg tilfinning að skynja og skilja, að allt það sem forfeðurnir börðust fyrir og sá mikli árangur sem fyrri kynslóðir hafa náð og skilað af sér, er núna í mikill hættu vegna vókaðra stjórnmálamanna. Fróðlegt verður að fylgjast með fullveldisferð Arnar Þórs Jónssonar næstu misserin. Hann segir landsmenn vera að vakna og íhaldsstefnan að snúa aftur.
Meira um viðtalið síðar. Smelltu á spilarann hér að neðan til að sjá og heyra Arnar Þór ræða málin: