
Gústaf Níelsson sagnfræðingur gerir athugasemd á Facebook við hræðsluáróður ýmissa stjórnmálafræðinga og sérfræðinga eins og prófessor Baldur Þórhallsson, sem segir að það sé „aðeins tímaspursmál hvenær Bandaríkin snúi sér að Íslandi.“
Gústaf segir þetta vera fjarstæðukenndan hræðsluáróður til að véla Ísland inn í ESB.
Gústaf Níelsson skrifar:
Það vekur nokkra furðu mína hvað evrópskir stjórnmálamenn og sporgöngumenn þeirra í „fræðunum“ geta farið beinlínis á taugum líkt og hendi sé veifað, vegna þess að maður, sem er þeim lítt þóknanlegur, var kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Þá er brugðið á það ráð að mála skrattann á vegginn og telja þjóðinni trú um það, að Íslendingar verði að huga að stofnun hers og koma á herskyldu og skammt sé í það að skessan í Hvíta húsinu vilji seilast til valda í landinu og fara sínu fram, hvað sem vilja landsmanna líður.
Þetta er auðvitað fjarstæðukenndur hræðsluáróður, sem er ýtt úr vör í því skyni að véla landið í ESB. En í þeirri aðgerð er engin vörn í reynd. Eftir sem áður mun öryggishaldreipið vera aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Auk þess væri ekki fráleitt núna að prjóna við varnarsamninginn ákvæðum, sem finna má í Herverndarsamningnum við Bandaríkin frá 1941, sem meðal annars tryggði vöruflutninga til landsins í seinni heimsstyrjöldinni.
Þessu til viðbótar mættu íslensk stjórnvöld vel hugleiða að bjóða NATO ríkjunum aðstöðu undir stóra flota- og björgunarmiðstöð í Finnafirði fyrir austan og jafnvel stóran flugvöll á Melrakkasléttu. Slík ráðstöfun væri mjög rökrétt, sé raunveruleg hætta af útrás Rússa á norðurslóðum.
Sannleikurinn er sá að allt er trúlega með sæmilega kyrrum kjörum um varnir Íslands í bráð og lengd, en það sem hefur breyst er að „óhefðbundinn“ maður stjórnar núna í Washington og hefur orsakað taugaáfall hjá evrópskum stjórnmálamönnum, sem aldrei hafa kunnað fótum sínum forráð við úrlausn krísumála á þeirra eigin heimasvæði.
Og íslensku valkyrjurnar hlaupa nú á fundum með þeim líkt og drukknar mýs og hrópa komiði nú með köttinn.