Gullið að klárast í London

Financial Times greinir frá því að gullgeymslurnar í Englandsbanka í London séu að verða tómar. Bankinn getur ekki lengur afhent gull til þeirra sem vilja leysa inn pappírsgull sitt og leitar nú aðstoðar frá Bandaríkjunum til að reyna að bjarga sér úr klípunni, ef að það er yfirleitt hægt.

Samkvæmt Financial Times er Englandsbanki farinn að tilkynna „biðtíma“ til að sækja gull úr hirslum bankans. Þar er meðal annars meiri hlutinn af gullforða Svíþjóðar geymdur í „öruggri geymslu.“ Í fyrstu var biðtíminn nokkrir dagar en núna er hann kominn í „fjórar til átta vikur.“

Financial Times segir gullskortinn stafa af því að Bandaríkjamenn hamstri gull vegna hugsanlegra tolla Trumps á eðalmálmum. Gull og gjaldeyrir eru undanþegin virðisaukaskatti og tollum í nánast öllum heiminum svo ekki er talið líklegt að af því verði.

Önnur og kannski líklegri skýring er sú, að ört hækkandi gullverð hefur ýtt undir áhuga almennings á beinu gulli. Gullverðið fór í hæstu hæðir bæði á fimmtudag og föstudag og fór hæst í 2.817,21 dollara únsan áður en viðskiptum lauk um helgina.

Ört hækkandi gullverð veldur því að almenningur kaupir gull, sem þýðir að sölufyrirtækin geta átt í erfiðleikum með að afgreiða gull í framtíðinni. Mörg þeirra selja nánast alltaf gull sem þau eiga ekki til.

Meðan Covid-19 braust út árið 2020 var gullskortur í bandarísku gullkauphöllinni Comex, sem var nálægt því að verða gjaldþrota en var bjargað með því að flytja inn gull frá LBMA í London sem hefur núna lent í vandræðum í staðinn.

Mikill áhugi er hjá vestrænum ríkjum að halda niðri gullverði sem hefur snarhækkað yfir vetrartímann. Í ágúst settu helstu vestrænu bankar met í að gera framtíðarsamninga á söluhliðinni – það er að segja að selja gull sem ekki er til – og þessir bankar verða gjaldþrota ef verð á gulli hækkar of mikið.

LBMA hefur áður stöðvað viðskipti og lokað tölvum kauphallarinnar, þegar verð á eðalmálmum hefur hækkað það mikið, að bankar eiga á hættu að verða fyrir áhrifum. Það gerðist árið 2022 þegar nokkrum stórum bönkum var hótað gjaldþroti eftir mikla hækkun á nikkel.

Kevin Grady, forseti Phoenix Futures and Options, varar við því að skortur á raunverulegu gulli gæti leitt til þess að gullmarkaði verði lokað nema afhendingar geti hafist fljótlega. Grady sagði við Financial Times:

„Það gæti verið mikið af gulli þarna úti, en það þarf að hreinsa það sem tekur tíma. Það gæti lamað markaðinn í einhvern tíma.“

Að sögn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta eru BRICS löndin við það að innleiða alþjóðlegan gjaldmiðil sem byggir á gulli og mun keppa við Bandaríkjadal. Það mun einnig geta ýtt undir áframhaldandi verðhækkanir á gulli.

Fara efst á síðu