Fyrirtæki með fleiri en 500 starfsmenn skyldug að hafa eftirlit með kolefnislosun starfsmanna til og frá vinnustað

Hjólreiðastæði að vetri til á Norðurlöndum. Samkvæmt eftirlitsskipun ESB fá þeir „betri andlega heilsu” sem hjóla í vinnuna.

Frá og með árinu 2024 verða öll skráð fyrirtæki með yfir 500 starfsmenn að framkvæma mælingar á kolefnislosun starfsmanna samkvæmt nýrri tilskipun ESB „Corporate Sustainability Reporting Directive, CSRD.” Er fyrirtækjunum meðal annars skylt að skrá sérstaklega þá losun sem hlýst af samgöngum starfsmanna á milli heimilis og vinnustaðar. Sænskt fyrirtæki hefur þróað app til að auðvelda þetta eftirlit með starfsmönnunum.

Áður fyrr hefur gögnum um ferðir starfsmanna verið safnað saman í könnunum. Fyrirtækin „Trivector Traffic og Backtick Technologies” í Lundi, Svíþjóð, hafa þróað nýja appið til að gera kolefniseftirlitið með starfsmönnum auðveldara. Anna Clark, verkefnastjóri hjá Trivector Traffic, segir í viðtali við Dagens industri:

„Í gegnum appið fáum við upplýsingar um hvenær og hvar ferðin hefst og hvenær henni lýkur, hvaða leið þú ferð og með hvaða ferðamáta ferðin var farin. Við höfum allar þessar upplýsingar. Út frá því getum við síðan reiknað út koltvísýringslosun og aðra umhverfisþætti.”

Sagt er að gögnin verði „hlutlaust tæki” til að hafa áhrif á ferðir starfsmanna til og frá vinnu. Clark vísar til rannsókna sem sýna, að þeir sem skilji eftir bílinn og taki strætó eða hjóla í vinnuna í staðinn, veikist sjaldnar og fái betri andlega heilsu. Anna Clark segir:

„Ef það á að auðvelda fólki að taka hjólið í vinnuna, þá þarf að skilja hversu margir koma hjólandi. Til dæmis hvort að til staðar séu nægjanlega stór hjólastæði. Kannski kemur í ljós, að margir nota bíl á nokkurn veginn sömu leið. Þá er kannski kominn tími til að skoða sameiginlega með yfirvöldum, hvort möguleiki sé á að hafa almenningssamgöngur sem tengja ákveðinn stað við vinnustaðinn.”

Fara efst á síðu