Fréttir um sænsk glæpagengi á Íslandi vekja athygli í Svíþjóð

Nær allir fjölmiðlar í Svíþjóð gera að umtalsefni, að útsendarar sænskra glæpahópa eru farnir að gera Íslendingum lífið leitt. Sjónvarpið, útvarpið, Sænska Dagblaðið, DN, Expressen, Aftonbladet og margir svæðisbundnir miðlar og valkostamiðlar t.d. Samnytt, Nýja Dagblaðið m.fl. greina frá útflutningi glæpahópa til Íslands. Það vekur óhug, hversu öflugir sænsku glæpahóparnir eru orðnir að þeir herja ekki bara í nágrannalöndunum í Skandinavíu, Noregi, Finnlandi og Danmörku, heldur teygja sig einnig yfir Atlantshafið alla leiðina til Íslands.

Ísland sem herlaust land hefur lítið sem ekkert viðnám gegn harðsvíruðum ofbeldisfullum glæpamönnum sem yfirleitt leysa málin með aðstoð skotvopna og sprengja. Í Svíþjóð hefur lögreglan að undanförnu handtekið fjölda unglinga í mörgum aðgerðum sem hafa verið með virkar handsprengjur í poka á almannafæri eins og í neðanjarðarlestum í Stokkhólmi. Danir hafa sett upp auka eftirlit með fólki sem kemur frá Svíþjóð vegna pantana um dráp á Dönum. „Barnahermenn“ kallaði utanríkisráðherra Danmerkur þennan nýja útflutning Svía. Lögreglan í Noregi hefur lýst því yfir að stærsta ógn við öryggi Norðmanna í eigin landi séu glæpamenn frá Svíþjóð.

„Hroðaleg þróun sem verður að bregðast við“

Það er dapurlegt að sjá ríkisstjórn Íslands brjóta niður samfélagið með innflutningi á alræmdum bandítum til landsins. Glæpamennirnir eru að finna og eigna sér nýja eiturlyfjamarkaði og stríða svo um yfirráðasvæðin. Á Íslandi er ástandið ekki orðið eins slæmt og í Svíþjóð, þar sem daglegar skotárásir eiga sér stað og farið að fella saklaust fólk í misskilningi eða vegna þess að viðkomandi var á vitlausum stað á vitlausum tíma. Ísland er hins vegar fámenn og herlaus þjóð og lögreglan hefur enga möguleika ef glæpahópunum tekst að verða sér úti um vopn sem flutt verða til landsins. Slíkir hryðjuverkamenn gætu hæglega framið valdarán á Íslandi og hertekið bæði stjórnarráð og alþingi.

Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra talar eins og sænskur krati, þegar hann segir að „þetta sé hroðaleg þróun sem verði að bregðast við.“ Rétt eins og hann komi af fjöllum eftir veru í ríkisstjórn Íslands í meira en áratug. Bjarni Benediktsson á sjálfur eina mesta ábyrgð á því, hvernig komið er fyrir íslenskri þjóð, hann og vinstri ríkisstjórn hans hafa haft nægjanlega langan tíma til að „bregðast við.“ En um það snýst ekki málið. Málið er að framfylgja verður stefnu sem er ákveðin erlendis og síðan er vísað til sem „alþjóðlegra skuldbindinga.“

Bjarni Benediktsson innsiglar fjárframlög Íslands til stækkandi bákns Sameinuðu þjóðanna sem þrengir að fullveldi sjálfstæðra þjóða. Hér með sósíalistanum António Guterres, aðalritara SÞ.

Fara efst á síðu