Fósturvísamálið sjötti þáttur: – Dramb er falli næst

Fósturvísamálið vindur upp á sig. Innbrotsþrjótar í sjúkraskrár hjónanna Hlédísar Sveinsdóttur og Gunnars Árnasonar hafa margir hverjir tengsl við Íslenska erfðagreiningu. Þannig tengist Íslensk erfðagreining óbeint aðkomu að Fósturvísamálinu. En það er meira en það. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hringdi í hjónin og hótaði þeim að þau yrðu sett í nálgunarbann og stærði sig af því að hann hefði ítök innan lögreglunnar. Það var áður en hjónin fengu á sig fyrsta nálgunarbannið.

Íslensk erfðagreining hefur verið að rannsaka frumur eineggja tvíbura sem eru rannsóknir á heimsmælikvarða. Gæti það verið hluti útskýringar á mörg þúsund innlitum, flestum ólöglegum, í sjúkraskrá Hlédísar?

Allt eftir því sem dýpra er horft í Fósturvísamálið og taugaveikluð viðbrögð yfirvalda við eðlilegri fyrirspurn hjónanna um 19 horfna fósturvísa, þeim mun fleiri spurningar vakna um hvað sé eiginlega í gangi í íslensku þjóðlífi.

Í stað þess að ræða við hjónin og styðja þau í baráttunni um að fá að vita sannleikann, þá lokar samfélagið öllum opinberum dyrum nema hjá Umboðsmanni Alþingis sem enn berst við að fá sjúkraskýrslu hjónanna frá Landsspítalanum fyrir þau ár sem vantar og þau eiga rétt á að fá samkvæmt lögum.

Þar hefur Alma Möller fv. landlæknir leikið ljótan leik og hættir störfum til að glansa í framboði Samfylkingarinnar. Er það þannig fólk sem vinnur gegn réttindum venjulegs fólks sem á að stjórna heilbrigðismálum Íslendinga?

50 egg voru tekin, 29 fósturvísar framleiddir, 10 notaðir og ….. var 19 bara hent eins og yfirmaður Livio, Reykjavík gefur í skyn? Hann hafði ekki einu sinni rætt við læknana sem frömdu verknaðinn, sem seldu Art Medica og stungu af með allar milljónirnar.

Hlédís lýsir hversu óhemju aðgerðir hún gekkst undir við eggjatöku mörgum sinnum án þess að eignast barn. Art Medica vildi halda áfram eggjatökum og tókst að ná í 50 egg fyrir eitt barn áður en Hlédís og Gunnar stöðvuðu leikinn. Allir sjá að þetta stenst enga skoðun. Hér eru aðgerðirnar í engu samræmi við tilefnið. Mismunurinn er líka of stór til að hér hafi orðið á einhver mistök. Art Medica notfærði sér trúnað Gunnars og Hlédísar og breytti þeim í fósturvísaverksmiðju.

Hlédís segir að slíkt sé kallað nauðgun í öðrum löndum þegar fósturvísi er rænt. Einu eintaki. Kemur í ljós að grunur þeirra hjóna reynist réttur, að þau séu lífforeldrar barna út í bæ, þá er hér hægt að tala um „hópnauðgun.“

Fjölmiðlarnir koma til umræðu og hversu grunnt er hjá sumum sem þykjast vera blaðamenn en dansa í pólitískum rétttrúnaðardansi. RÚV krónar á toppnum og neðar á stiganum koma miðlar eins og Samstöðin, Frosti Logason og Útvarp Saga. Viðkvæmnin er greinilega mikil og hótanir koma eflaust fyrir sem bara vekur meiri andúð á þeim yfirvöldum sem ofsækja hjónin, rægja og ulla út úr sér tunguna, þegar beðið er um minnstu hjálp.

Jafnvel fyrrverandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, tekur þátt í þessum ljóta leik og grýtir í drambi lokun á tölvupóstsamskipti við fósturvísahjónin.

Ó Ísland, Guð vors lands, hvar ert þú á vegi statt?

Fara efst á síðu