
Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins bendir á í páskagrein að bandaríska ríkið hafi styrkt á sjöunda þúsund blaðamenn og yfir 700 fréttamiðla í meira en 30 löndum frá árinu 2003. Hann bendir á að fjölmiðlar sem RÚV m.fl. byggi fréttir sínar á eru einmitt aðilar sem þegið hafa þá styrki.
Arnar Þór Jónsson skrifar:
,,Fréttir“ til sölu
Kæru landsmenn, ef þið eruð enn að eyða tíma ykkar í að horfa á sjónvarpsfréttir og fá skilaboð þaðan um hvað þið eigið að hugsa, þá er hér umhugsunarverð ábending sem furðu lítið hefur farið fyrir í íslenskum fjölmiðlum:
Wikileaks hefur flett ofan af fjárstuðningi USAID við fjölmðla í meira en 30 löndum frá árinu 2003. Fjármunir hafa runnið til 6.200 blaðamanna og 707 fréttamiðla, auk þess sem styrkir hafa runnið til 279 félagasamtaka. Í þessu felast stórkostleg afskipti bandarískra yfirvalda af alþjóðlegri fjölmiðlun síðustu tvo áratugi. Á fjárlögum fyrir árið 2025 voru 268,4M dollara eyrnamerktar „sjálfstæðum fjölmiðlum og frjálsu upplýsingastreymi“ (e. independent media and the free flow of information). Meðal fjölmiðla og fréttaveitna sem þegið hafa þessa styrki eru: Reuters: 9M dollara; AP 500þ dollarar; Politico 32M dollara; New York Times 2,6M dollara; BBC 3,2M dollara; Internews 404M dollara. Rétt er að undirstrika að þetta eru einmitt þeir fjölmiðlar og fréttaveitur sem RÚV, mbl.is og visir.is virðast hafa allt sitt vit frá.
Hefur fjölmiðlanefnd vakið athygli á þessum afhjúpunum? Hefur fjölmiðlanefnd einhvers staðar lagt til að tekið verði til umræðu hversu varnarlaus almenningur hefur verið gagnvart áróðri og hvernig fréttamennskan hefur greinilega verði gerð að söluvöru? Því hef ég ekki tekið eftir, en ég veit hins vegar að þegar „veiran skæða“ var mest til umræðu þá hvatti fjölmiðlanefnd okkur til að taka mest mark á „stórum og rótgrónum“ fjölmiðlum. Umrætt átak nefndarinnar „mikilvægu“ fór af stað í maí 2020, en einmitt í þessum sama mánuði voru íslensk heilbrigðisyfirvöld upptekin við að nota PCR próf á allt sem hreyfðist. Í maí 2020 voru 10 manns taldir hafa látist úr Covid hérlendis, en 1798 tilfelli höfðu greinst og 3640 taldir hafa smitast, sem benti til að dánartíðni smitaðra væri 0,3%. Þótt augljóst væri orðið strax á þessum tíma að C19 var samkvæmt þessu ekki drepsótt – og ekki hættuleg ungu og heilsuhraustu fólki – var haldið áfram að berja á fólki með linnulausum hræðsluáróðri í fjölmiðlum.
Ég veit ekki með ykkur, en það var einmitt um þetta leyti sem ég hætti að taka mark á „stórum og rótgrónum fjölmiðlum.“
P.S. Að lokum legg ég til að RÚV verði tekið af fjárlögum / rekstur þess skorinn niður um 90% og fjölmiðlanefnd verði lögð niður.