Strætisvagn í ljósum logum miðvikudagskvöld í einum verstu óeirðum í Lissabon í lengri tíma.
Óeirðir hafa geisað í Lissabon eftir að innflytjandi frá Grænhöfðaeyjum, lést af skotum lögreglu sem var að verja sig. Ofbeldi og eyðilegging er á götum borgarinnar, kveikt er í rútum og greint frá fjöldameiðslum fólks.
Öfga-vinstri aðgerðasinnar og félög farandverkafólks hafa verið með óeirðir í Lissabon í vikunni eftir að glæpamaðurinn Odair Moniz sem er innflytjandi frá Grænhöfðaeyjum var skotinn til bana af öryggislögreglumanni á mánudaginn. Hafa óeirðir verið í mörgum hverfum og spenna aukist á milli óeirðarseggja og lögreglunnar.
Odair Moniz, 43 ára gamall, var skotinn í útborg Lissabon, Amadora, eftir að lögreglan reyndi að ná tali af honum. Lögreglan sagði að hann hafi veitt mótspyrnu við handtöku og ráðist á lögreglumenn með hnífi sem leiddi til þess að lögreglumaður skaut hann í sjálfsvörn.
Hafin er rannsókn á dauða Moniz og einnig þeim ofbeldisfullu mótmælum sem hafa fylgt í kjölfarið. Lögreglumaðurinn sem skaut Moniz hefur verið kærður og vopn hans gert upptækt.
Ólæti brutust fljótlega út í Zambujal-hverfinu eftir dauða Moniz og þróuðust upp í óeirðir, þar sem kveikt var í strætisvögnum og bílum og skemmdir unnar á almennum samgöngum. Ráðist hefur verið á venjulega borgara og þeir hnífstungnir og grjóti kastað á lögreglu og nokkrir lögreglumenn eru á spítala vegna árásarinnar. Þrír einstaklingar hafa verið handteknir í tengslum við óeirðirnar.
Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgals, sagði í yfirlýsingu á miðvikudag:
„Samfélag okkar er og vill vera áfram friðsælt samfélag, þrátt fyrir að félagsleg, efnahagsleg og menningarleg vandamál ásamt ójöfnuði hrjái það enn.“
André Ventura, leiðtogi hægriflokksins CHEGA, tekur upp hanskann fyrir lögreglumanninn sem í hlut á með þeim rökum að lögreglumaðurinn hafi sinnt skyldu sinni og að rannsóknin eigi ekki sjálfkrafa að gera ráð fyrir því, að lögreglan hafi brotið af sér.
Ventura gagnrýnir stjórnvöld fyrir að einbeita sér að þessu máli á meðan víðtækari ofbeldismál gegn lögreglumönnum eru látin sitja á hakanum. Hann sendi ríkisstjórninni pillu:
„Lögreglan er vondu kallarnir og glæpamennirnir eiga alla athygli og viðurkenningu skilið.“
Óeirðirnar héldu áfram í gær fimmtudag og hlaut strætóbílstjóri alvarleg brunasár eftir að ráðist var á strætisvagninn með molotov-kokteilum. Tilkynnt hefur verið um eldsvoða og fleira ofbeldisverk á mörgum stöðum í höfuðborgarinni.