Fimmti hver vinnuinnflytjendi frá löndum fyrir utan ESB er atvinnulaus í Svíþjóð

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson og fjármálaráðherra Svíþjóðar, Elisabeth Svantesson eru farin að horfa á atvinnuleysistölurnar eins og gamalkunnir sósíaldemókratar. (Samsett mynd skjáskot SVT).

Í nýrri rannsókn á innfluttu vinnuafli til Svíþjóðar (ekki flóttafólki) frá löndum fyrir utan ESB/EES kemur fram að 20% þeirra hafa hvorki atvinnu eða tekjur. Upphaflega var rætt um hámenntað vinnuafl sem myndi gera Svíþjóð ríkari en þeir sem eru búsettir hafa veika stöðu á vinnumarkaðinum.

Svíþjóð hefur fjórða mesta atvinnuleysi 15-74 ára í ESB. Þá er allur vinnumarkaðurinn talinn með. Það sem er hér til umræðu er rannsókn skrifuð af þeim Mattias Engdahl, fil.dr. í þjóðhagfræði og Erik Sjödin, dósent og lektor við Félagsrannsóknarstofnun Stokkhólmsháskóla sem tekur einungis yfir þann hluta innflytjenda sem komið hafa sem vinnuinnflytjendur. Rannsóknin byggir á gögnum um þá sem hafa verið skráðir í íbúaskrá frá tímabilinu 2000–2023 og dregur fram árangur og einnig „verulegar áskoranir.“ Erik Sjödin segir:

„Það sem kemur mest á óvart er að svo stór hluti þeirra sem komu hingað til að vinna hefur engar sýnilegar tekjur. Við getum aðeins velt því fyrir okkur, hvernig þessi hópur hefur lífsviðurværi, þar sem hann fær heldur ekki styrki að neinu marki.“

Breytingar á lögum um innflutning vinnuafls í Svíþjóð árið 2008 breytti áherslunni frá athugun stjórnvalda á þörf fyrir vinnuafl yfir í eftirspurn vinnuveitenda. Lagabreytingunni hefur oft verið lýst sem einni frjálslegustu reglugerð í heimi og leiddi til verulegrar fjölgunar innflytjenda sem komu til Svíþjóðar í atvinnuleit. Breytingin hefur einnig haft í för með sér mikil vandamál. Erik Sjödin heldur áfram:

„Reglugerðin var hönnuð til að mæta þörfinni á vinnuafli og skapa möguleika á lífsviðurværi fyrir viðkomandi. En þegar svo stór hluti þessa innflutta vinnuafls er án tekna, þá hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar, hvort kerfið virki í raun eins og því er ætlað að gera.“

Mikilvæg niðurstaða rannsóknarinnar er sú, að herða verði lögin til að tryggja að allir farandverkamenn vinni í samræmi við tilskilin atvinnuleyfi. Erik Sjödin segir að þörf sé fyrir aukið eftirlit með vinnuaðstæðum þessara innflytjenda:

„Það er nauðsynlegt að við getum fylgt eftir og tryggt, að atvinnuleyfin séu ekki bara formleg skilyrði heldur að þeir sem hingað koma til að vinna hafi í raun og veru atvinnu og geti séð fyrir sjálfum sér.“

Í einni af fyrri skýrslum gerir Mattias Engdahl grein fyrir stöðu flóttamanna og aðstandenda í þremur stærstu borgum Svíþjóðar. Niðurstaðan er sláandi: minna en helmingur sér fyrir sjálfum sér eftir tíu ára veru í Svíþjóð.

Skýrslan um innflutt vinnuafl fyrir utan ESB/EES er á sænsku hér fyrir neðan:

Fara efst á síðu