Ó sú auma þjóð! Kveinstafir móðuharðindanna endurfæðast, þegar þjóðin fær að finna á eigin skinni, þá eyðileggingu sem óvinir hennar í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur framkvæma tilfinninga- og samviskulaust til að uppfylla markmið ESB um að komast yfir fiskimið Íslendinga. Allir þeir sem hlýddu á frásögn Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar í Spursmálum, sjá árangur skattahækkanahöggsins gegn undirstöðuatvinnuvegi landsmanna. Binni á Vinnslustöðinni í Eyjum er vandaður maður og annt um fyrirtækið og starfsmenn þess. Það hefur ekki verið skemmtilegt fyrir hann að tilkynna 50 harðduglegum starfsmönnum sem allir búa yfir mikilli reynslu að þeir þyrftu að taka pokann sinn. Allar áætlaðar fjárfestingar eins og endurnýjun togara og veiðarfæra eru settar á ís. Eignir seldar. Verðskapandi vinnsla á karfa flyst úr landi, markaðir erlendis sem tekið hefur mörg ár að byggja upp glatast. Og þetta er bara fyrsta skrefið.
Veiðigjaldið bara fyrir Fiskvinnsluna eru álíka og afborgun af 22 milljarða láni en hér er ekki um að ræða neitt lán heldur beingreiðslur til ríkissjóðs. Miðað við veiðigjöldin áður er um rúma tvöföldun á greiðslubyrði að ræða. Ef fyrirtækið á ekki að þurfa að fara enn ver út úr árásum embættisfólksins, þá verður Fiskvinnslan að gera ráðstafanir til að bera höggið. Þjóðin mun missa þjóðartekjur, atvinnuleysi eykst og kaupmáttur heimilanna minnkar.
Kristrún Frostadóttir lofaði fyrir kosningar að hækkun veiðigjalda yrði tekin á tíu árum. En eins og allt annað sem kemur frá vörum hennar, þá voru orðin innantóm. Fiskvinnslan er eitt fyrirtæki, öll önnur sjávarútvegsfyrirtæki koma í kjölfarið og höggið verður óbærilegt fyrir allt þjóðarbúið og eyðileggur tækifæri mörg ár ef ekki áratugi fram í tímann. Binni lýsir talnaruglingi og hugviti ríkisstjórnarinnar á eftirfarandi hátt:
„Þetta er bara heimska. Þetta er bara fólk sem hefur enga innsýn inn í þennan rekstur.”
Hatur ríkisstjórnarinnar á duglegum útgerðar- og sjómönnum er dæmigert stéttahatur öfundsjúkra jafnaðarmanna og kommúnista. Talað er um „umfram” arð ef viðkomandi gengur það vel að hægt er að nota hluta ágóðans til að nýta tækifæri og skapa atvinnu í öðrum greinum. Það sem stéttabaráttumenn sjá ofsjónum yfir eru frumkvöðlar sem sjá viðskiptatækifæri, þegar aðrir eru blindir. Þetta notfærir Evrópusambandið til hins ýtrasta til að píska upp sundrungu svo þjóðin geti ekki sameinast frammi fyrir úrslitaátökum um ESB-aðild Íslands.
Af hálfu Alþingis verður ekkert annað í boði nema það sem ESB hefur áður lagt upp ráðin með. Ríkisstjórnin er þegar meira heima í glæstum höllum Evrópusambandsins en á Alþingi. Þar verður ekki einu sinni málfrelsi lengur í boði fyrir stjórnarandstöðuna, gerið bara eins og við segjum … annars notum við kjarnorkuákvæðið aftur. Og aftur og aftur og aftur……