ESB greiðir fjölmiðlum fyrir áróðursstarfsemi

ESB mokar skattfé Evrópubúa í ríkis- og einkafjölmiðla til að kaupa sér vinsamlegan „frétta“ flutning

Ókjörin forysta hins gjörspillta Evrópusambands (ESB) greiðir nú almennum fjölmiðlum fyrir að hampa stefnumálum ESB. Samkvæmt nýrri skýrslu, „Fjölmiðlamaskínan í Brussel: Fjármögnun evrópskra fjölmiðla og mótun almenningsumræðu,“ eftir Thomas Fazi frá evrópsku hugveitunni MCC Brussels, hefur ESB varið allt að einum milljarði evra á síðasta áratug eingöngu í þetta ferli.

Með því að kalla verkefnin „baráttu gegn rangfærslum og upplýsingaóreiðu“ sóar ESB a.m.k.
€80 milljónum af skattfé árlega, í „fjölmiðlaverkefni“ – og þá er ekki með talið óbein fjármögnun, svo sem auglýsingasamningar.

Skýrslan sýnir einnig að ESB rekur mjög háþróaða „ESB fjölmiðlasamsteypu“ sem gerir því
kleift að móta frásagnir fjölmiðla um stofnunina og stefnumál hennar.
Samkvæmt skýrslu Fazi:

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins – eingöngu í gegnum Samstarfsáætlun í blaðamennsku, með heildarfjárveitingar upp á nærri €50 milljónir  – stýrir víðfeðmu vistkerfi ESB ,samstarfs’ fjölmiðla. Í gegnum árin hafa þessi verkefni falið í sér hundruð verkefna, allt frá kynningaherferðum fyrir ESB til vafasamra ‚rannsóknarblaðamennsku‘-verkefna og víðtækra ‚anti-falsfrétta‘ átaka. Og þetta er ofan á auglýsingaherferðirnar sem fjármagnaðar eru í gegnum Upplýsingaráætlanir fyrir samheldnistefnu ESB (IMREG), upp á €40 milljónir…

„Enn meira áhyggjuefni er miðlægt hlutverk stórra evrópskra opinberra fjölmiðla í þessu ferli. Þessi verkefni sýna að þetta snýst ekki um einstaka samvinnu, heldur vaxandi uppbyggingu formlegs sambands á milli stofnana ESB og opinberra fjölmiðlaneta.“

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðist bókstaflega hafa keypt nær allt og alla í fjölmiðlaheiminum – sem þýðir að allir, frá fréttastofum til fjölmiðla, opinberra fjölmiðla (eins og BBC og RÚV) og annarra fjölmiðlastofnana, eru að meira eða minna leyti í vasa framkvæmdastjórnar ESB. Nokkur dæmi:

Meðal fréttastofa – sem nánast allir fjölmiðlar treysta á fyrir fréttaflutning sinn – hefur framkvæmdastjórn ESB mokað skattfé Evrópubúa í eftirfarandi, meðal annarra: Agence France-Presse hefur fengið €7 milljónir, ANSA (Ítalía) €5,6 milljónir, Deutsche Presse-Agentur (Þýskaland) €3,2 milljónir, Agencia EFE (Spánn) €2 milljónir evra, Associated Press (AP) €1 milljón, Lusa fréttastofan (Portúgal) €200,000, pólska fréttastofan €500,000 og Aþenu fréttastofan €600,000.

Framkvæmdastjórn ESB hefur einnig keypt áhrif meðal margra fjölmiðlafyrirtækja: Euronews (pan-evrópskur) €230 milljónir evra, ARTE (Frakkland) €26 milljónir evra, Euractiv (pan-evrópskur) €6 milljónir, Gazeta Wyborcza (Pólland) €105,000, 444.hu (Ungverjaland) €1,1 milljón evra, France TV (Frakkland) €400,000, GEDI Gruppo Editoriale (Ítalía) €190,000, ZDF (Þýskaland) €500,000 evra, og Bayerischer Rundfunk (Þýskaland) €600,000.

Opinberir fjölmiðlar (sjá bl. 59) hafa fengið eftirfarandi: Deutsche Welle (Þýskaland) €35 milljónir, France Médias Monde €16,5 milljónir, France Télévisions €1 milljón, RAI Radiotelevisione italiana (Ítalía) €2 milljónir, RTBF (Belgía) €675.000, RTP (Portúgal) €1,5 milljónir, Eistneska opinbera útvarpið, ERR €1 milljón, RTVE (Spánn) €770,000, ERR (Eistland) €1 milljón evra og TV2 (Danmörk) €900,000.

Fjölmiðlastofnanir eins og Blaðamenn án landamæra (Frakkland) og Journalismfund Europe (Belgía) hafa hvor um sig fengið €5,7 milljónir og €2,6 milljónir. Hollensk stofnun sem kallar sig óháða, Bellingcat, hefur fengið €440,000.

Þessi fjölmörgu dæmi um fjölmiðla og fréttastofnanir eru einungis innan ESB, en ESB rekur einnig umfangsmiklar áróðursaðgerðir utan stofnunarinnar, að sjálfsögðu undir vinsamlegum áróðursslagorðum eins og „fjölmiðlafrelsi” og „fjölbreytni“ – eins og ESB hafi hina minnstu hugmynd eða áhuga á frelsi og fjölbreytni. Verkefnin hafa einkum beinst að fjölmiðlum í Úkraínu, Armeníu, Aserbaídsjan, Georgíu, Moldóvu, Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og á Vestur-Balkanskaga.

Ekkert er gagnsætt við þessa fjármögnun. Samkvæmt skýrslunni er fjármögnunin ógegnsæ og erfitt er afhjúpa hana. Vitanlega reynir ESB af fremsta megni við að hylma yfir eigin spillingu.

Skýrslunni lýkur:

„[H]ið sívaxandi fjölmiðla-fjármögnunarkerfi ESB… skapar fjárhagslegt ósjálfstæði, hvetur til einhliða fréttaflutnings og ýtir undir upplýsingavistkerfi þar sem gagnrýnar raddir eru jaðarsettar – allt undir dyggðaflöggun og ‚baráttu gegn upplýsingaóreiðu‘, ‚kynningu á evrópskum gildum‘ og ‚uppbyggingu evrópsks almenningsrýmis.‘

„Umfang sambandanna á milli ESB-stofnana og stórra fjölmiðla aðila – allt frá opinberum fjölmiðlum til fréttastofa og netmiðla – er hvorki skaðlaust né tilviljanakennt. Það felur í sér kerfisbundinn hagsmunaárekstur sem dregur úr getu fjölmiðla til að starfa sem óháðar undirstöður lýðræðis. Jafnvel án beinnar íhlutunar í ritstjórnarstefnum er sú staðreynd að fjölmiðlar reiða sig á ESB styrki og samninga nægjanlegt til að skapa skaðvænleg áhrif á gagnrýna umfjöllun fjölmiðla og hvetja þá til sjálfkrafa samstillingar við stefnumál og afstöðu ESB.“

Stjórnkerfi ESB virðist, því miður, vera gjörspillt og ólýðræðislegt – kerfi sem á barmi örvæntingar reynir að halda í völd með spilltum áhrifakaupum og íþyngjandi ritskoðun. Hundruð milljónir Evrópubúa sætta sig enn við þetta. Viljið þið vinsamlegast vakna?

Íris Erlingsdóttir,
fjölmiðlafræðingur

Þýtt og endursagt: Gatestone Institute – Robert Williams
11. september, 2025
https://www.gatestoneinstitute.org/21870/eu-pays-media

Fjölmiðlamaskínan í Brussel: Thomas Fazi
https://brussels.mcc.hu/uploads/default/0001/01/10af81f9f28a04dbcb2e9fb98bf28a7c9f16a07a.pdf

Fara efst á síðu