Íhaldshugveitan MCC Brussels gaf í vor út skýrslu (sjá pdf að neðan) sem bendir á þá óhuggulegu þróun sem ESB stendur fyrir með hundruðum milljónum evra af fé skattgreiðenda sem eytt er í „rannsóknir á hatursorðræðu og rangfærslur.“ ESB eyðir gríðarlegum fjárhæðum í eftirlit með opinberri umræðu til þess að greina og kæfa niður andófsraddir gegn sambandinu.
Skýrslan „Rangfærsluframleiðslan: Áróðursstríð gegn tjáningarfrelsi fjármagnað af ESB“ er skrifuð af Dr. Norman Lewis, breskum sérfræðingi með yfir tveggja áratuga reynslu í reglugerðum um stafræn samskipti.
Í rannsóknum sínum benti Lewis á 349 verkefni sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fjármagnaði, aðallega í gegnum Horizon rannsóknaráætlunina, með áherslu á að sporna gegn „hatursorðræðu“ og „rangfærslum.“ Kostnaðurinn við þetta er 649 milljónir evra – 31% meira en það sem Brussel eyðir í krabbameinsrannsóknir.
Hugveitan segir í fréttatilkynningu sem málgagnið „Evrópski íhaldsmaðurinn“ vekur athygli á:
„Þessi gríðarlega úthlutun skattfjármagns er notuð af ásettu ráði til að kosta Orwellska rangfærsluflækju sem notuð er til að stjórna og hafa eftirlit með málfari opinberrar umræðu.“
Í skýrslunni er því slegið föstu að hér sé ekki um neitt góðgerðarverk ábyrgrar ríkisstjórnar að ræða, heldur sé um að ræða kerfisbundna árás á tjáningarfrelsið í Evrópu til að þagga niður opinbera umræðu til hagsbóta fyrir markmið Brussel.
Status quo
Lewis bendir einnig á lista yfir meðvituð tvíræð og dulræn hugtök sem fylgja oft slíkum verkefnum, sem eru hönnuð til að skapa tilbúinn hugmyndafræðilegan ramma. Markmiðið er að stjórna hinni pólitísku frásögn og gera andstæðinga ólögmæta. Langtímamarkmiðið er að skapa „siðferðispaník“ sem réttlætir víðtæk ritskoðunartæki eins og stafrænu þjónustulögin Digital Service Act, DSA og evrópska lýðræðisskjöldinn European Democracy Shield, EDS. Lewis segir:
„Það er hvorki verið að leita að sannleikanum eða fá fram nýja þekkingu. Hér er eingöngu verið að framfylgja elítískri frásögn sem er hönnuð af búrókrötum til að viðhalda status quo.“
„Tjáningarfrelsislögregla ESB“
Stærsta áhyggjuefni skýrslunnar er að verið er að þróa kerfi háþróaðrar gervigreindar fyrir mörg þessara verkefna. Gervigreindin á ekki aðeins að fylgjast með og ritskoða óvelkomið efni í rauntíma, heldur á hún einnig að hafa áhrif á og breyta afstöðu með því að „þjálfa“ ungt fólk á netinu til að verða „umboðsmenn“ eða „tjáningarfrelsislögreglu“ fyrir áróður ESB.