Erum á ögurstundu í lýðræðissögunni

Þjóðólfur náði tali sem snöggvast af Arnari Þór Jónssyni, formanni Lýðræðisflokksins þegar aðeins örfáir dagar eru að kjördegi í þessum kosningum sem boðað var til í skyndingu með afar skornum tímamörkum. Lýðræðisflokkurinn er ekki tveggja mánaða gamall og tókst á aðeins einum mánuði að koma fram með framboðslista í öllum kjördæmum sem hlýtur að vera algjört einsdæmi í Íslandssögunni. Slíkt verður að teljast afrek út af fyrir sig.

Spældir keppinautar „gamla Flokksins“ sem Arnar Þór segir að nái eiginlega sem samheiti yfir þær eftirlegukindur allra annarra flokka sem sitja fastar útí mýri sjálftökunnar, reyna að hræða kjósendur frá því að kjósa Lýðræðisflokkinn. Sagt er að atkvæðum sé kastað á glæ og fyrirséð samkvæmt könnunum, að flokkurinn nái ekki inn á þing. En flokkar eins og Lýðræðisflokkurinn, sem er valkostur Íslands við stjórnmálaspillingu og sofandahátt, byrja oft rólega en vaxa og verða að miklu stjórnmálaafli, þegar þjóðin hefur séð hvaða stefna er í boði og hvaða fólk vinnur að framgangi lýðræðisins.

Litli drengurinn sem sagði sannleikann

Það er því ekki nýtt en jafnhvimleitt engu að síður, að áróðursmenn gamla súrdeigsins reyna allt sem þeir geta til að rægja og spilla um fyrir slíku nýju stjórnmálaafli sem kemur til með velta um koll hlassi spillingar, sóunar og ránshendi á eigum landsmanna. Arnar Þór bendir á ástandið á Íslandi og í heiminum og segir að nú sé ögurstund í lýðræðissögunni. Arnar Þór hefur augu fyrir marga og mælir fyrir almannaheill, hann hefur reynslu úr réttarfarskerfinu og dómstólum og þar eru sem betur fer margir ágætismenn og konur sem þurfa oft á tíðum að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Að Arnar er heill þeim boðskap sem Lýðræðisflokkurinn boðar má sjá af því að hann hefur gefið hjarta sitt baráttunni fyrir þjóðina gegn því ofríki og þeirri spillingu sem náð hefur að skjóta rótum á okkar farsældar Fróni. Hann líkir því við nýju fötin keisarans sem eiginlega mætti heita:

„Litli drengurinn sem sagði sannleikann.“

Botnlaus loftslagshít

Sem dæmi nefnir hann loftslagsfárið, sem hefur náð tökum á stjórnmálamönnum sem eins konar brjálæði og segir:

„41 milljarðar hafa týnst í lofslagsaðgerðum og Alþjóðabankinn getur ekki gert grein fyrir í hvað peningarnir hafa farið. Hér eru lagðar 21 milljarðar króna í loftslags -, orku- og kolefnisgjöld og 15 milljarðar fara í þróunaraðstoð.“

Arnar Þór bendir á að nær væri að peningarnir væru notaðir í aðra málaflokka eins og til dæmis Landspítalann en þar ríkir neyðarástand:

„Er ekki nær að við lögum okkar eigin mál fyrst áður en við förum að bjóðast til að laga þau hjá öðrum?“

Um síðustu helgi lauk COP29, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og þar var ákveðið að þrefalda peningagreiðslur til SÞ í 300 milljarða dollara árlega fram að 2030. Síðan á sú upphæð að fara í 1.300 milljarða dollara árlega eftir það. Það eru 135 fjárlög íslenska ríkisins, svo orðið brjálæði virðist ekki langsótt.

Rangar fullyrðingar starfsmanns RÚV

Arnar Þór spurði hvað Þjóðólfur fengi mikinn styrk af austri ríkisins í fjölmiðla. Svarið lét ekki standa á sér: 0,00 íslenskar krónur. Ríkisútvarpið er tímaskekkja og vill Arnar Þór láta leggja það niður eða gera grundvallarbreytingar á rekstrinum. Hann segir RÚV hafa fjarlægst grundvallarhlutverki sínu samkvæmt lögum og nefndi eitt nýtt dæmi í viðtali sínu í þættinum Forystuhlutverkið hjá RÚV í gær. Þar kom þáttarstjórnandinn Bergsteinn Sigurðsson með rangar fullyrðingar gagnvart Eldi Smára Kristinssyni, frambjóðanda Lýðræðisflokksins sem greinilega voru fram settar til að koma Arnar Þór úr jafnvægi. Það merkilega er, að RÚV hafði nýlega haft lengri viðtal við Eld Smára en ekki nefnt orð um það sem núna var slengt á borðið af hálfu spyrilsins. Þegar farið er inn á heimasíðu RÚV má lesa eftirfarandi leiðréttingu við þáttinn:

Leiðrétt klukkan 15:28, 27. nóvember: Í viðtalinu var sagt að Eldur Smári Kristinsson, formaður Samtakanna 22 og oddviti Lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefði mætt óboðinn í grunnskóla og verið fjarlægður af lögreglu. Hið rétta er að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar tilkynnti málið til lögreglu.

RÚV segir hormónabælandi lyf á börn vera afturkræfa aðgerð

Baráttan er hörð um að karlmenn sem vilja geti kallað sig konur og notað salerni og opinber kvennarými fyrir sig og einnig tekið þátt í íþróttagreinum kvenna og þá unnið þær þótt þeir næðu aldrei slíkum árangri í íþróttakeppni karla. Lýðræðisflokkurinn leggst að sjálfsögðu á sveif með réttindum kvenna að þær fái að vera konur og haldi áunnum mannréttindum. Bergsteinn hélt því líka fram að „hormónabælandi lyf sem börn fá sé afturkræf aðgerð að mati kynkirtlalækna“ og verður að telja það merkilega fullyrðingu, því miklar deilur eru um málið í flestum löndum. Í Svíþjóð hafa drengir komið fram sem sjá eftir slíkri meðferð og segja líf sitt eyðilagt. En RÚV hefur tapað sannleikanum fyrir löngu síðan og vaggar sér á tónum pólitísks rétttrúnaðar.

Skoðanakúgun á Íslandi

Arnar Þór greindi frá því, að daglega setur fólk sig í samband við hann og viðrar skoðanir sínar og er sammála stefnu Lýðræðisflokksins en þorir ekki að segja það opinberlega. Stjórnmálaelítan á Fróni hefur kverkatak á vinnandi fólki sem er í hættu að missa fyrirvinnu og efnahagslega möguleika ef það hlýðir ekki eins og í heimsfaraldrinum. Fólk á besta aldri þorir ekki að sýna hvaða pólitískar skoðanir það hefur. Þetta ástand er náttúrulega ekki samboðið neinni þjóð sem vill kalla sig lýðræðislega. Arnar Þór kallar eftir rannsókn á meðhöndlun yfirvalda á Covid-19 en þar lærðu allir að hlýða Víði.

Arnar Þór er önnum kafinn fyrir kosningadaginn og Þjóðólfur sendir honum og Lýðræðisflokknum góðar óskir um velgengni í kosningabaráttunni.

Hér má lesa um 12 áherslur hins nýstofnaða Lýðræðisflokks.

Hlustaðu á viðtalið með því að smella á spilarann hér að neðan:

Fara efst á síðu