Elon Musk lokar X í Brasilíu eftir fangelsishótun frá dómstólum

Alexandre de Moraes / Elon Musk (Myndir: Marcelo Camargo / Ríkisstjórn UK).

Elon Musk tilkynnti á laugardag að samfélagsmiðillinn X myndi loka starfseminni í Brasilíu. Æðsti dómstóll landsins, sem er í höndum sósíalistastjórnarinnar undir forystu Alexandre Moraes dómara, hótaði að varpa starfsmönnum X og lögfræðingum þeirra í fangelsi, ef X fylgdi ekki harðri ritskoðunarstefnu stjórnarinnar.

X Global Affairs skrifar um ákvörðunina:

„Í gærkvöldi hótaði Alexandre de Moraes að handtaka lögfræðing okkar í Brasilíu, ef við förum ekki að ritskoðunarfyrirmælum hans. Hann gerði það með leynilegri skipun sem við deilum hér til að afhjúpa gjörðir hans.

Þrátt fyrir að fjölmargar kærur okkar til Hæstaréttar hafi ekki verið teknar fyrir og brasilískur almenningur hafi ekki verið upplýstur um þessar skipanir og að brasilískt starfsfólk okkar hafi enga ábyrgð eða stjórn á því hvort efni sé lokað á vettvangi okkar, þá hefur Moraes valið að hóta starfsfólki okkar í Brasilíu frekar en að virða lög og réttláta málsmeðferð.

Þar af leiðandi, til að vernda öryggi starfsfólks okkar, höfum við tekið þá ákvörðun að loka starfsemi okkar í Brasilíu nú þegar. X þjónustan verður samt áfram í boði fyrir íbúa Brasilíu.

Okkur þykir mjög miður að hafa neyðst til að taka þessa ákvörðun. Ábyrgðin er eingöngu hjá Alexandre de Moraes. Aðgerðir hans eru ósamrýmanlegar lýðræðislegri ríkisstjórn. Íbúar Brasilíu þurfa að velja: lýðræði eða Alexandre de Moraes.”

Elti X og Musk í lengri tíma

Ákvörðunin kemur engan veginn eins og elding af himnum ofan. Hæstaréttardómarinn Alexandre de Moraes, sem er tryggur ráðandi sósíalistastjórn, hefur verið að eltast við Elon Musk og X í mörg ár.

Musk hefur persónulega tjáð sig um atvikið og þá staðreynd, að X var bannað að gefa upp raunverulega ástæðu lokunarinnar og hvatt til að gefa ranga útskýringu:

„Við höfum stöðugt verið að fá þessar kröfur frá Alexandre dómara um að loka reikningum sitjandi þingmanna og blaðamanna. Við máttum ekki segja þeim að þetta væri fyrir hönd Alexandre, við urðum að láta eins og það væri vegna reglna okkar. Og það var dropinn sem fyllti mælinn og við sögðum nei.”

Fara efst á síðu