Það er ekkert annað en reginhneyksli ef Alþingi tekur ekki fyrir misnotkun ESB á stærsta fjölmiðli landsins, Ríkisútvarpinu, – RÚV, sem Ingvar Smári Birgisson stjórnarmeðlimur RÚV upplýsti um í Morgunblaðinu í morgun. Evrópska umhverfismálaáætlunin LIFE, hefur kostað umfjöllun í ríkisútvarpinu á verkefnum ESB og rekið áróður fyrir Evrópusambandið. Ekkert kemur lengur á óvart, hvað varðar þessa áróðursstofnun „í glæpaleiti,“ þar sem virðing fyrir lögum, hvað þá siðferði virðist löngu horfið út í buskann.

Ingvar Smári Birgisson situr í stjórn Ríkisútvarpsins og upplýsir í viðtali við Morgunblaðið, að RÚV hafi þegið beinar greiðslur frá ESB til að flytja áróður í hag ESB.
Spillingarfnykurinn er orðinn slíkur af störfum RÚV að jafnvel stjórnarmeðlimirnir geta ekki orða bundist lengur. Eftir þessa uppljóstrun verður Alþingi að taka vinnubrögð RÚV fyrir. Það gengur ekki að drottnari fjölmiðlamarkaðarins sé á spena ESB. Það skýrir hins vegar einhliða málflutning RÚV sem fyrir löngu er búið að gleyma skyldum sínum við hlustendur.
„Í liðnum mánuði voru sérstök viðvörunarorð bókuð í stjórn Ríkisútvarpsins ohf., vegna kostunar á dagskrárefni Rúv. með styrkjum frá hagsmunaaðilum hvers konar, en þar var sérstaklega vísað til LIFE Icewater-verkefnisins, þar sem fyrirhugað er að stofnunin fái styrk frá Evrópusambandinu í tengslum við umfjöllun sína um verkefnið.“
Ingvar Smári segir í samtali við Morgunblaðið:
„Með því að þiggja styrki frá Evrópusambandinu í tengslum við umfjöllun um innleiðingu tilskipana getur stofnunin eðli málsins samkvæmt rýrt trúverðugleika sinn í umfjöllun síðar meir. Það er alltaf varhugavert að taka við styrkjum frá sjóðum erlendra ríkja, sér í lagi þegar téðir sjóðir hafa verið notaðir til þess að fjármagna áróðursstarfsemi.“
ESB hefur neyðst til að viðurkenna spillingu LIFE
Framkvæmdastjórn ESB hefur viðurkennt að fjárveitingar frá LIFE-áætlun sambandsins voru misnotaðar í pólitískum tilgangi af ýmsum hagsmunagæslusamtökum. Embættismenn framkvæmdastjórnarinnar vissu af þessu en aðhöfðust ekkert. Umrædd samtök, sem öll eru vinstra megin á hinu pólitíska litrófi, nutu styrkja í gegnum LIFE-áætlunina, sem ætlað er að styðja umhverfis- og loftslagsverkefni, en dæmi væru um að fjármunirnir hefðu verið notaðir til „óeðlilegrar hagsmunagæslu.“
Á heimasíðu ESB er Björg María Oddsdóttir hjá Rannsóknarmiðstöð Íslands, Rannís, gefin upp sem tengiliður LIFE verkefna á Íslandi. Að hennar sögn eru á þriðja tug umsóknaraðila í LIFE-verkefni ESB á Íslandi. Sótt er um styrki til verkefna gegnum samráðsgátt ESB og sérfræðingaverktakar ESB meta hæfni umsókna til samþykkis. Umhverfis – og orkustofnun sér um mörg verkefni þar sem Life hefur græn verkefni á sinni könnu.
Alþingi Íslendinga verður að taka málið fyrir svo upplýst fáist um raunverulegt hlutverk RÚV varðandi LIFE og hvort brotið hafi verið gegn útvarps- og fjölmiðlalögum. Komi það á daginn verður að krefjast grundvallarlegrar uppstokkunar á aðkomu ríkisins að íslenskum fjölmiðlum.
Politico segir ekkert athugavert við verkefnið
Politico hefur fjallað um málið og fullyrðir að ekkert sé athugavert við fjárgreiðslu ESB í LIFE verkefnum:
„Hvergi í þeim 28 samningum sem gerðir hafa verið við félagasamtök og greindir af POLITICO gefur framkvæmdastjórnin bein fyrirmæli um að reka áróður fyrir hönd hennar. Um 60 blaðsíður af ákvæðum lýsa þeim skilyrðum sem félagasamtök verða að fylgja, þar á meðal reglum gegn svikum, spillingu og óupplýsingum.“
Bent er á að ESB geti skorið niður styrki ef félagasamtök framfylgja ekki vinnuáætlunum og jafnframt er settur „fyrirvari um að skoðanir og hugmyndir frjálsra félagsamtaka endurspegli ekki endilega skoðanir Evrópusambandsins.“
Meira má finna á linkum ESB hér: