Blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans
Það var merkileg tilviljun, að á sama tíma og Páll Vilhjálmsson ræddi við okkur Hall Hallsson á Þjóðólfi um reynslu sína í Byrlunarmálinu svo kallaða, þá birti lögregan yfirlýsingu um að fella niður rannsókn málsins. Páll Vilhjálmsson kallar það réttilega „eina mestu sakfellandi niðurfellingu sakamáls í íslenskri réttarsögu.“
Páll Vilhjálmsson skrifar á bloggi sínu í dag:
„Yfirlýsing lögreglu staðfestir meginfrásögnina af byrlunar- og símastuldsmálinu. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað á Akureyri 3. maí 2021 af þáverandi eiginkonu, sem hafði verið í sambandi við blaðamenn. Á meðan skipstjórinn var meðvitundarlaus á gjörgæslu Landsspítalans í Reykjavík, 4. til 6. maí, fór konan með síma eiginmannsins yfir götuna á milli Landsspítala og RÚV á Efstaleiti og afhenti blaðamönnum. Síminn var afritaður á RÚV; þar var unnið með gögnin. Fréttir með vísun í gögnin birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanum þann 21. maí 2021. Allir blaðamennirnir gætu hafa brotið af sér gagnvart skipstjóranum, segir í yfirlýsingu lögreglu:
Sakarefni samkvæmt 228. og 229. gr. alm. hgl. lýtur að brotum á friðhelgi einkalífs meðal annars með því að hnýsast í, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi. Þar er afstaða Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að allir sakborningar í málinu gætu hafa sýnt af sér atferli sem getur flokkast undir brot á framangreindum ákvæðum. […]
Það er mat Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að ekki hafi tekist að sanna hver afritaði símann, hvernig og hver afhenti öðrum upplýsingar um einkamálefni brotaþola.“
Fréttaskrif RÚV byggð á byrlun og símastuldi
Eins og kemur fram í þættinum Ritskoðun á Íslandi, þá eru málaferli enn í gangi gegn Páli Vilhjálmssyni og bíða úrlausnar landsréttar. Páll skrifar:
„Þórður Snær þorir ekki að útskýra hvernig fréttin hans um skæruliðadeild Samherja varð til. Honum til upprifjunar er dómur í héraðsdómi Reykjavíkur, í máli Aðalsteins Kjartanssonar gegn tilfallandi. Dómurinn féll í vor og bíður áfrýjunar í landsrétti. Í dómnum segir að tilfallandi hafi
verið heimilt að halda því fram í bloggfærslu sinni að fréttaflutningur blaðamannanna hefði byggst á upplýsingum sem aflað hefði verið með refsiverðum hætti…
Ennfremur, segir í dómnum, er
óumdeilt í málinu að fréttaflutningur stefnanda [Aðalsteins], sem hann hlaut verðlaun fyrir, byggðist að hluta til á gögnum er tilheyrðu Páli Steingrímssyni.
Þórður Snær fékk verðlaun fyrir sömu frétt og Aðalsteinn. Lögreglan segir fréttir blaðamanna fengnar með byrlun og símastuldi; héraðsdómur staðfestir. En blaðamennirnir segjast ekki hafi gert neitt rangt. Sökin sé öll hjá lögreglunni sem dirfðist í óþökk blaðamanna að rannsaka byrlun, stuld og afritun.“
Byrlunarmálið fer ekki af dagskrá í bráð
Páll Vilhjálmsson skrifar að lokum:
„Hitt er öllum ljóst að byrlunar- og símastuldsmálið verður ekki tekið af dagskrá í bráð. Gögnin sem lögregla aflaði eru enn ekki öll komin fram og verður ekki pakkað ofan í skjalageymslu.
Burtséð frá mögulegri kæru til ríkissaksóknara er viðbúið að skipstjórinn höfði einkamál vegna þess miska sem blaðamenn gerðu honum og fjölskyldu hans. Blaðamenn gerðu miskunnarlausa atlögu að skipstjóranum og beittu fyrir vagn sinn fárveikri eiginkonu hans. Tímasetning dómsmáls gæti farið saman við kosningabaráttu Þórðar Snæs að komast á alþingi fyrir Pírata. Gangi Doddanum vel að sannfæra kjósendur að hann sé heiðarlegur maður. „