Dómurinn yfir Ursula von der Leyen: Hún átti að afhenda texta-skilaboðin

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tapað umdeildu máli fyrir Evrópudómstólnum eftir að hafa neitað að birta textaskilaboð sem send voru milli Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, og Alberts Bourla, forstjóra Pfizer. Dómstóllinn telur að framkvæmdastjórnin hafi ekki gefið neina trúverðuga skýringu á því hvers vegna ekki er hægt að finna skilaboðin.

Deilan varðar textasamskipti á síma von der Leyen sem tengjast milljarða dollara samningum um bóluefni gegn Covid sem fram fóru á milli ESB og Pfizer á tímum Covid-faraldursins.

Eftir að New York Times greindi frá því að textaskilaboð hefðu átt sér stað milli aðila í tengslum við gríðarlega innkaup á bóluefnum, bað blaðið um afrit af skilaboðunum en var hafnað.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hélt því fram, að hún hefði ekki haft aðgang að textaskilaboðunum en samkvæmt Evrópudómstólnum gat framkvæmdastjórnin ekki útskýrt hvers vegna. Dómstóllinn úrskurðaði að framkvæmdastjórnin hefði hvorki greint frá því hvar hún leitaði að skilaboðunum né hvernig leitin var framkvæmd, að því er Euronews greinir frá.

Ekki hefur heldur verið skýrt hvort skilaboðunum var eytt – og ef svo er, hvort það var gert af ásettu ráði, gerðist sjálfkrafa eða þegar von der Leyen skipti um farsíma. Dómstóllinn segir í úrskurði sínum:

„Framkvæmdastjórnin hefur ekki gefið neina trúverðuga skýringu á því hvers vegna umbeðin gögn finnast ekki.“

Textaskilaboðin varða meðal annars samning í upphafi á 200 milljónum skammta af Pfizer-BioNTech bóluefninu, sem ESB samþykkti í desember 2020, sem og viðbótarpantanir að upphæð 2,4 milljarða evra árið 2021.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í yfirlýsingu að hún muni „rannsaka dómsúrskurðinn vandlega“ og heldur því opnu að dómnum verði áfrýjað. Framkvæmdastjórnin hefur tvo mánuði til að áfrýja ákvörðuninni.

Fara efst á síðu