Arlanda flugvelli lokað í nótt vegna óþekktra dróna

Fjórir óþekktir drónar sveimuðu yfir Arlanda flugvelli norður af Stokkhólmi í nótt og varð að loka flugvellinum í nokkra tíma. Flugvélum var beint til annarra flugvalla í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi og varð ein vél að nauðlenda í Skavsta, Nyköping vegna þess að eldsneytið var á þrotum. Flugumferð hófst að nýju fyrir klukkan fjögur.

Flugumferðarstjórn ákvað að loka Arlanda flugvelli um eitt leytið aðfaranótt mánudags vegna óþekktra dróna sem voru á flugi við flugvöllinn. Cecilia Bengtström, blaðafulltrúi flugmálayfirvalda, segir að starfsmenn í flugturni flugvallarins hafi séð fjóra dróna í mismunandi stærðum og þá var ákvörðun tekin um að loka flugvellinum. Samkvæmt Aftonbladet sendi lögreglan mikið lið bæði á bílum og í þyrlu til að rannsaka málið. Daniel Wikdahl blaðafulltrúi lögreglunnar sagði í viðtali við Aftonbladet:

„Við söfnum saman upplýsingum um, hvar drónarnir voru og hvernig þeir flugu. Við vinnum að málinu með mörgum öðrum stofnunum, meðal annars hernum.”

Rannsókn er hafin á skemmdarstörfum varðandi flug og öryggi. Herinn sendi engan á vettvang í nótt og um hálf fjögur leytið var talið óhætt að hleypa flugumferð á að nýju. Cecilia Bergström gat ekki svarað, hvort drónarnir hefðu verið eyðilagðir eða horfið af eigin vélarafli. „Einu upplýsingarnar sem ég get veitt, er að flugumferð er hafin að nýju.”

Dularfullir drónar í Uppsala

Um tíu leytið sunnudagskvöld var lögreglunni tilkynnt um dularfulla dróna í Uppsala. Meðal annars voru nokkrir þeirra á sveimi við bækistöðvar lögreglunnar. Hvort samband sé á milli drónaflugsins í Uppsala og í Arlanda í nótt er ekki vitað. Brot gegn lögum um flugumferðaröryggi varðar allt að fjögurra ára fangelsi og ef afbrotið er gróft og setur líf fólks í hættu getur refsing varðað allt að ævilöngu fangelsi.

Fara efst á síðu