Vigdís Hauksdóttir fæddist baráttukona sem unnir landi sínu og þjóð. Hún berst einarðlega gegn hvers konar spillingu og þá fremst hjá hinu opinbera sem á að vera í höndum landsmanna og þjóna okkur öllum. Togstreita stjórnmálanna hefur hins vegar leyft bákninu að vaxa sem síðan hefur farið yfir á sjálfstýringu og stjórnar í raun ansi miklu. Svo miklu að segja má að hið háa Alþingi þurfi að láta í minni pokann og ókjörnir embættismenn ráða í raun ferðinni. Glíma lýðræðiskjörinna embættismanna sé því oft við hinn ókjörna „E-flokk“ eða Embættismannaflokkinn sem ráði för í stað lýðræðislegra kjörinna embættismanna.
Þjóðólfur náði tali af Vigdísi Hauksdóttir vegna alls kosningaklúðurs sem opinberaðist í síðustu alþingiskosningum sem haldnar voru samkvæmt nýjum kosningalögum ættuðum úr ranni Steingríms J. Sigfússonar. Vigdís Hauksdóttir gerði athugasemdir við framkvæmd atkvæðatalningar í Reykjavík og fékk til baka lágkúrulegt yfirklór landskjörstjórnar. Dæmigerðir akademískir lögfræðilegir útursnúningar sem gera Vigdísi Hauksdóttir að skotspóni í stað þess að taka athugasemdir hennar alvarlega. Núna hefur Dagur B. Eggertsson sem glatað hefur trúverðugleika sínum eftir innleiðingu spilltra stjórnarhátta í Reykjavík verið settur yfir nefnd Alþingis sem rannsaka á framkvæmd síðustu Alþingiskosninga (sic)!
Framkvæmdavaldið farið fram úr löggjafarvaldinu
Alþingi hefur enn ekki komið saman eftir kosningar og því hefur kjör nýrrar ríkisstjórnar enn ekki verið staðfest á formlegan hátt nema með blessun forsetans á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Engu að síður hegða stjórnarflokkarnir sér eins og allt sé í fínasta lagi þrátt fyrir að verið sé að skipa nefnd til að athuga lögmæti kosningaúrslitanna. Greinilegt er eins og Vigdís segir, að nefnd Dags B. Eggertssonar er ætlað að tjösla saman einhverri skýringu á því að allt sé í stakasta lagi. Hvað gera menn ef svo mikil handvömm kemur í ljós samanber horfinn atkvæðakassa til Akureyrar, að lýsa þurfi kosningarnar ógildar? Allt sjónarspilið sem núna er í gangi gæti reynst sýning þeirra sem í reynd eru umboðslausir en ríghalda sér í valdastólana.
Með því að nýta sér hámarksleyfistíma fram að 4. febrúar eru ríkisstjórnarflokkarnir að fara á svig við Alþingi og taka sér einhliða stjórnunarvald.
Ágætis kosningakerfi varpað fyrir róða – Til hvers?
Vigdís Hauksdóttir bendir á að nýju kosningalögin séu til komin úr ranni Steingríms J. Sigfússonar frá árunum 2009 – 2013. Hafi öllum ólíkum kosningalögum um sveitarstjórnarskosningar, þingkosningar, forsetakosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur verið steypt saman í einn graut og eftirlit tekið úr góðum höndum sýslumanna og sett í hendur sveitarstjórnanna sjálfra. Hvers vegna? Vigdís gagnrýnir að ekki megi vera sérstök kosningalög um hverjar kosningar fyrir sig, þar sem þær eru á svo ólíkum forsendum eins og kosningar til þings og forseta ásamt þjóðaratkvæðagreiðslum.
Trúverðugleiki kosningafyrirkomulagsins rýrist, þegar kjörkassar eru ekki lengur fluttir undir umsjón lögreglunnar heldur séu einka sendiferðabílstjórar látnir flytja kassana. Hún nefnir dæmi um kosningar Íslendinga á Spáni, þar sem gamlir bjórkassar eru notaðir sem kjörkassar. Sýslumaður er einnig ábyrgðarstarf fjarri pólitíska glamrinu sem reynst hefur vel hingað til. Spyrja má hvaða tilgangi það þjónar að vera að kollvarpa góðu kerfi sem skilað hefur störfum á ágætis máta fyrir landsmenn? Hvað vilja þau öfl sem þannig torvelda lýðræðinu með nýjum vanhugsuðum reglum?
Lýðræðið gengisfellt
Miðað við málfar Landskjörstjórnar er venjulegum kjósendum varla gert kleift að tala mannamál við yfirvöld. Byrjað er að drepa málið með löngum runum tilvitnana í margvísleg lög og reglugerðir sem skilur þá tilfinningu eftir að þeir einu sem geti rætt málin séu lögfræðingar. Slíkur háttur hefur og einkennt margan stjórnmálamanninn þótt þeir séu einnig til sem reyni að viðhalda sæmilegri íslensku.
Hættan við þessa þróun er eins og Vigdís bendir á að ókjörnir embættismenn stjórni og lýðræðið smækkað í stöðugri gengisfellingu. Með því tærist sjálft lýðveldið og leiðir opnast fyrir erlend áhrif og yfirtöku sem lýðræðislega kjörnir einstaklingar eiga erfitt ef ekki ómögulegt að spyrna gegn. Kjörnir embættismenn hafa ekkert vald.
Þjóðin þarf að leggja sig í málin með afgerandi hætti
Hér þarf þjóðin að taka tak, bretta upp ermarnar og styðja við bak foringja sinna á Alþingi og veita þeim það bakland sem krefst til að þora að standa fyrir málum þjóðarinnar á þingi.
Því miður hefur borið of mikið af hinu gagnstæða. Stjórnmálamenn nútímans líta á starfið sem bitling til góðra launa og utanlandsferða á kostnað skattgreiðenda, því þeir þurfa ekkert að leggja annað á sig en að stimpla þær ákvarðanir sem annað hvort koma frá ESB eða einhverjum af þeim mörgu nafnlausu og ókjörnu sem í sameiningu mynda „Embættismannaflokkinn.“
Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan: