Sænska SVT greinir frá því að sala rafbíla hafi hrunið og vísar til nýskráninga bíla samkvæmt ACEA sem eru samtök bílaframleiðenda í Evrópu. Nýskráðir rafbílar í ESB voru 92 627 í ágúst s.l. sem er 44% samdráttur miðað við fyrir ári síðan. Þýskaland er verst úti allra ríkja í Evrópu. Þar var samdrátturinn 69%. Í Frakklandi er samdrátturinn 33%. Óhætt er að tala um hrun og spáð er gjaldþrotum í þýska bílaiðnaðinum og í fleiri ríkjum ESB með miklu atvinnuleysi í kjölfarið. Kínverskir rafbílaframleiðendur hafa vind í seglin og slá út Vesturlönd í samkeppninni.
Samdrátturinn veldur uppnámi í þýska bílaiðnaðinum – bílasala og hagnaður hrynja. Samtök verktaka í bílaiðnaðinum vara við því að ört vaxandi samkeppni frá Kína setur milljónir evrópskra starfa í hættu. Sala bíla hefur ekki verið jafn lítil í þrjú ár. Verst gengur með rafbílana: mínus 44 prósent í ágúst. Stærstu vandamálin eru í Þýskalandi. Peter Brytesson, framkvæmdastjóri undirverktaka bílaiðnaðarins segir:
„Staðan hjá þýskum bílaframleiðendum er svipuð og hjá Nokia, Ericsson og Motorola. þegar þau voru slegin út af þróun snjallsímans á örfáum árum. Þeir hafa sofið á verðinum á meðan kínverskir framleiðendur hafa farið fram úr bæði hvað snertir gæði og verðmæti.“
Dýr og seinvirk framleiðsla
Volkswagen kom snemma með rafbíla en seinvirk framleiðsla í verksmiðjunum ásamt dýru vinnuafli og dýrri orku hefur gert fyrirtækinu erfitt um vik að standa sig í samkeppninni frá Kína. Auk þess hefur VW, eins og meirihluti evrópskra bílaframleiðenda, unnið eftir úreltum viðskiptamódelum og aðallega fjárfest í rafbílum sem fáir hafa efni á að kaupa.
Bæði útflutnings- og innanlandsmarkaðurinn ganga treglega og er afnuminn rafbílastyrkur ein af ástæðunum. Margir evrópskir bílaframleiðendur vara við verulega skertum hagnaði: BMW, Mercedes, Stellantis. Og auðvitað VW sem talar um að loka verksmiðjum og láta 30.000 starfsmenn fara.
Margir bílaframleiðendur framleiða mun færri bíla en framleiðslugetan segir til um og hríðfallandi hlutabréfaverð endurspeglar dökkar horfur fram undan.
Milljónir starfa í hættu
Að sögn Bryntesson finna sænskir undirverktakar fyrir samdrættinum í Evrópu. Hann útilokar ekki uppsagnir en telur stöðuna örlítið bjartari en í Þýskalandi:
„Bílaframleiðsla í Svíþjóð beinist frekar að vörubílum og þar er samkeppnin frá Kína ekki eins mikil og á fólksbílamarkaðinum. Á sama tíma er Þýskaland mikilvægur markaður fyrir sænsku fyrirtækin.“
Samkvæmt ACEA starfa um 13 milljónir manns í bílaiðnaðinum í ESB. Mörg þessara starfa eru í hættu.
Stærstu bílaframleiðendur í Evrópu:
- VW (Þýskaland). Þekkt vörumerki: Volkswagen, Audi, Porsche, Skoda, SEAT, Bentley, Bugatti og Lamborghini. Um 10,3 milljónir framleiddra bíla árið 2022 og 675.000 starfsmenn.
- Stellantis (fjölþjóðlegt). Þekkt vörumerki: Peugeot, Citroën, Fiat, Chrysler, Jeep, Dodge, Ram, Opel, Vauxhall, Maserati, Alfa Romeo. Um 6,3 milljónir bíla framleiddir árið 2022 og 272.000 starfsmenn.
- BMW Group (Þýskaland). Þekkt vörumerki: BMW, Mini, Rolls Royce. Um 2,5 milljónir bíla framleiddir árið 2022 og um 149.000 starfsmenn.
- Daimler AG (Þýskaland). Þekkt vörumerki: Mercedes-Benz, Mercedes-AMG, Mercedes-Maybach, Smart. Um 2,4 milljónir bíla framleiddar árið 2022 og um 170.000 starfsmenn.
- Renault Group (Frakkland). Þekkt vörumerki: Renault, Dacia, Alpine. Um 2,0 milljónir bíla framleiddir árið 2022 og 121.000 starfsmenn.
- Ford Europe (í bandarískri eigu). Um 1,5 milljón bíla framleidd árið 2022 og 45.000 starfsmenn.
- Volvo Cars (í eigu Kína). Um 700.000 bílar framleiddir árið 2022 og um 43.000 starfsmenn.