107 alþjóðlegir „sérfræðingar“ líkja loforði Donalds Trump um að binda enda á Úkraínustríðið á 24 klukkustundum við München-samkomulagið við Adolf Hitler ár 1938. Frá þessu greinir áróðursmálgagn Úkraínu „Euromaidan Press.“
Sænska fræðikonan Anna Wieslander er yfirmaður Norður-Evrópudeildar nýíhaldssömu bandarísku áróðursveitunnar „Atlantic Council.“ Hún er ein af 107 „alþjóðlegum sérfræðingum“ sem undirrita bréf þar sem varað er við friði í Úkraínu. Anna Wieslander segir í viðtali við sænska ríkisútvarpið Studio Ett:
„Við berum það saman við München-samkomulagið sem gert var við Adolf Hitler, þar sem hann fékk hluta af Tékkóslóvakíu. Eftir það fór Chamberlain heim til Breta og sagðist hafa bjargað Bretum frá miklu stríði og ári síðar braust seinni heimsstyrjöldin út.“
Wieslander heldur því fram, að það sé hættulegt að veita Rússum eftirgjöf vegna þess að þeir muni þá halda áfram með ný stríð í Evrópu. Wieslander gagnrýnir yfirlýsingar Donald Trump á fundi með Volodymyr Zelenskyj í september, vegna þess að Trump „stimplaði ekki Pútín á fullnægjandi hátt sem Hitler.“ Trump sagði á fundinum:
„Það eru mjög góð samskipti á milli okkar og Zelensky.“ Svo bætti Trump fljótlega við: „En við höfum líka, eins og þú veist, mjög góð samskipti við Pútín forseta. Og í stríði þarf tvo til að dansa tangó.“
Anna Wieslander telur að ESB og Bandaríkin eigi að veita Úkraínu réttinn að nota bandarískar langdrægar eldflaugar til að ráðast á skotmörk langt inni í Rússlandi, þrátt fyrir að Vladimír Pútín hafi lýst því yfir, að það þýði að Rússland sé komið í stríð við Evrópusambandið og Bandaríkin.