Arnar Þór Jónsson formaður Lýðræðisflokksins skrifar:
Ef þú værir að byggja hús, myndirðu sætta þig við að pípulagningameistarinn segði við þig að hann vissi ekki hvort skólplögnin myndi halda, en að tíminn myndi leiða það í ljós? Á þessa leið leyfir innviðaráðherra Íslands sér að svara í viðleitni hans til að bjarga ásjónu sinni og flokksins síns þegar komið hefur í ljós að þar tala menn með klofinni tungu.

Á sama tíma og þetta gerist afhjúpar Bandaríkjaforseti “Wall of Fame” í Hvíta húsinu með myndum af öllum forsetum Bandaríkjanna, nema einum: Í stað ljósmyndar af Joe Biden má sjá mynd af vélstýrðum penna (e. Autopen). Myndin felur í sér áminningu og gagnrýni á þá afbökun stjórnarfarsins sem tíðkaðist í forsetatíð Biden, sem fólst m.a. í að vélpenninn samþykkti 2,5 milljarða dollara framlag til Úkraínu meðan Biden var í fríi í St. Croix, sbr. meðfylgjandi mynd. Á sama tíma undirritaði penninn náðunarbréf, slakaði á landamæragæslu o.fl. Meirihluti Bandaríkjamanna sættir sig ekki við slíkt vélrænt og ábyrgðarlaust stjórnarfar og krefst þess að vita hverjir stýrðu pennanum og fóru þannig með vald forsetans í fjarveru hans. Forseti USA er kjörinn af fólkinu til að fara með vald og ábyrgð, rétt eins og Alþingi Íslendinga er kjörið til valda og ábyrgðar. Í USA er litið á það sem stjórnarfarslegt hneyksli að vald forsetans hafi verið yfirtekið af óþekktu og umboðslausu fólki, enda brjóta svona ,,vinnubrögð” gegn grundvallarviðmiði vestrænnar stjórnskipunar um jafnvægi milli valdaaðila (e. checks and balances).

Á Íslandi leyfa ráðherrar í ríkisstjórn sér að tala eins og þeir beri enga ábyrgð og að þeir megi samþykkja lög í von og óvon um að þau standist stjórnarskrá. Það er rangt. Alþingi getur engin lög sett sem brjóta gegn stjórnarskrá og í vafatilvikum á stjórnarskráin að njóta vafans, ekki EES samningurinn, því stjórnarskráin er okkar æðsta réttarheimild.
Vilji menn tala um ólögmæta meðferð forsetavalds í Bandaríkjunum á valdatíma Bidens sem stjórnarfarslegt hneyksli, þá skortir orð til að lýsa því sem gerst hefur á Íslandi síðustu áratugi þar sem Alþingi hefur samþykkt, án undantekninga, ALLT það regluverk sem ESB hefur þóknast að póstsenda okkur til samþykktar og innleiðingar, án þess að nokkur einasti maður á þingi eða í ráðuneytunum sjái til botns í þeim þúsundum skuldbindinga sem þessar reglur hafa lagt Íslandi á herðar.
Ég hef sagt það áður og ég skal segja það aftur: Engin þjóð getur búið við slíkt bremsulaust stjórnarfar án þess að þurfa að gjalda það dýru verði. Því það er rangt og afvegaleiðandi sem dómsmálaráðherra o.fl. fullyrða, að í þessu felist aðeins réttindi fyrir Íslendinga. Augljóslega felast í þessu alls konar skyldur, og ef þessu linnir ekki þá munu skuldadagarnir munu koma yfir íslenska þjóð eins og þjófur að nóttu.
Vélræn og bremsulaus innleiðing Alþingis á ESB reglum er ekki í samræmi við góða lagasetningarhætti, því lög á að setja að frumkvæði kjörinna Alþingismanna og að undangenginni alvöru umræðu. Í raun er þessi framkvæmd hrein og klár niðurlæging fyrir þjóð sem á stjórnarskrá og kýs sér ennþá fulltrúa á löggjafarþing í þeim tilgangi að þeir gæti réttar Íslendinga. En þessi framkvæmd er þó ekki aðeins niðurlægjandi og þetta er ekki aðeins til marks um lausung í lagasetningu. Þetta sjálfvirka afgreiðslu- og undirritunarferli felur í sér viðvarandi brot gegn þeim skyldum sem handhafar íslensks löggjafarvalds hafa undirgengist með þvi að vinna drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins. Rétt eins og pípulagningameistari getur ekki vikið sér undan ábyrgð og sagt að hann voni það besta, þá leyfist ráðherrum í ríkisstjórn Íslands ekki að vísa ábyrgð á Hæstarétt. Hæstiréttur fer ekki með löggjafarvaldið, heldur þingmenn og ráðherrar sem til þess hafa verið kjörnir. Verði þetta ekki stöðvað núna munu síðari kynslóðir setja upp “Wall of Shame” í þinghúsinu með innrömmuðum andlitsmyndum af núverandi þingmönnum og ráðherrum.