Volkswagen íhugar í fyrsta skipti að loka þýskum verksmiðjum

Verksmiðja Volkswagen í Wolfsburg. (Mynd H C /CC 2.0).

Í fyrsta skipti í 87 ára sögu sinni íhugar Volkswagen að loka verksmiðjum í Þýskalandi. Forstjóri fyrirtækisins, Oliver Blume, segir að „bílaiðnaðurinn í Evrópu er í mjög alvarlegri og krefjandi stöðu.”

Oliver Blume, forstjóri Volkswagen útskýrir harðnandi samkeppni á evrópskum mörkuðum ekki síst frá kínverskum rafbílaframleiðendum:

„Efnahagslega umhverfið verður sífellt harðara og nýir keppinautar að koma inn á Evrópumarkað. Þýskaland sem framleiðsluland dregst sérstaklega aftur úr hvað varðar samkeppnishæfni.”

Til að „tryggja framtíð“ fyrirtækisins þarf að loka verksmiðjum, Þýskaland ekki undanskilið. Fyrirtækið reynir einnig að fella úr gildi ráðningarsamninga við stéttarfélög sem hafa verið gildandi frá 1994.

Sparnaður upp á 10 milljarða evra

Í lok síðasta árs hóf Volkswagen sparnaðaraðgerðir upp á 10 milljarða evra. Stærsti einstaki markaður fyrirtækisins er í Kína og þar blæðir Volkswagen og heldur áfram að tapa markaðshlutdeild. Á fyrri helmingi ársins 2024 dróst sala til kínverskra viðskiptavina um 7% samanborið við sama tímabil árið 2023. Hagnaður fyrirtækisins minnkaði um 11,4% og fór niður í 10,1 milljarða evra.

Í Kína laða staðbundin vörumerki sífellt að fleiri viðskiptavini, til dæmis BYD, sem talið er að geti í auknum mæli ögrað markaði Volkswagen í Evrópu. Blume áréttar:

„Helsta verkefni okkar er að lækka kostnaðinn. Við höfum gert allar nauðsynlegar skipulagsráðstafanir og núna snýst þetta um kostnað, kostnað og kostnað. Ástandið er afar spennuþrungið og verði ekki leyst með neinum einföldum sparnaðaraðgerðum.“

Ógnar störfum og vinnustöðum

Búist er við mikilli andstöðu starfsmanna og verkalýðsfélaga gegn sparnaðaráformunum og telur IG Metall, eitt stærsta verkalýðsfélag Þýskalands, að „slæm stjórn“ bílaframleiðandans sé helsta orsök vandans. Verkalýðsfélagið segir í yfirslýsingu:

„Í dag lagði stjórnin fram óábyrga áætlun sem skekur Volkswagen í grunni sínum og er stórfelld ógn við störf og vinnustaði. Þessi nálgun er ekki bara skammsýni heldur einnig mjög hættuleg – hún á á hættu að eyðileggja hjarta Volkswagen… Við munum ekki þola áætlanir sem fyrirtækið gerir á kostnað vinnuaflsins.“

Um það bil 683.000 starfsmenn vinna hjá Volkswagen um allan heim og tæplega 300.000 þeirra vinna í Þýskalandi.

Fara efst á síðu