Vissi ekki að Ísland væri svo djúpt sokkið í froðufræðin

Þjóðólfur náði tali af Íris Erlingsdóttur sem núna er stödd í Reykjavík í heimsókn fjölskyldunnar til gamla góða Fróns. Íris hefur eins og venjulega frá miklu að segja og núna er hún að kanna hver áhrifin af kvennavæðingu þjóðarinnar hafa orðið fyrir samfélagið en núna eru konur í öllum mikilvægustu embættum þjóðarinnar.

Hún greinir frá því að sér hafi verið brugðið við að lesa frétt af konu sem pyntaði sambýlismanninn til dauða og var dæmd í 16 ára fangelsi. Eftir aðeins 15 mánuði var hún flutt í „opið fangelsi“ á Sogni sem er algjört einsdæmi og trúlega af þeirri einu ástæðu að hún er kona.

Íris komst einnig að því eftir að hafa frétt af ræðu Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, að kynjafræði væri skyldufag í barnaskólum á Íslandi. Íris sagði þá: „Ég vissi ekki að Ísland væri svo djúpt sokkið í froðufræðin.“

Morðingi fær afslátt á dómi vegna kyns

Írís Erlingsdóttir segir frá frétt um dæmda konu sem pyntaði sambýlismann sinn til dauða 2023 og fékk 16 ára fangelsisdóm eins og kemur fram í frétt DV. Það sem vekur furðu er að morðinginn fékk að fara í opið fangelsi eftir að hafa afplánað 15 mánuði af 16 ára dóm. DV segir:

„Sjaldgæft er, ef ekki einsdæmi, að fangar sem dæmdir hafa verið fyrir svo alvarlegt brot fari jafnsnemma í opið fangelsi. Algengt viðmið er að fangar með langa dóma afpláni að minnsta kosti fjögur ár í lokuðu fangelsi.

Talað er um að þetta sé engan veginn sanngjarnt gagnvart ættingjum mannsins. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, er hins vegar sáttur við þessa ákvörðun Fangelsismálastofnunar. Segir hann konur eigi undir högg að sækja í fangelsum.

Hérna er greinilega verið að gefa afslátt á refsingu bara út á kyn morðingjans og segir Íris að slík meðhöndlun hefði aldrei verið veitt ef karlmaður hefði átt í hlut.

Ísland – draumaríki kvenna

Aldrei áður hafa jafn margar konur verið í mikilvægustu embættum þjóðarinnar og núna. Forsetinn, formenn ríkisstjórnarflokkanna, biskupinn, flokksforingjar í stjórn Reykjavíkurborgar, biskupinn, ríkislögreglustjórinn, rektor Háskólans….listinn er lengri.

Miðað við eigið mat ættu hin jákvæðu áhrif kvennaveldisins að sýna sig í bættu samfélagi. Spurningin er: Hefur kvennavæðingin virkilega haft slík áhrif? Íris bendir á að þótt allar þessar konur gætu verið góðir einstaklingar, þá minnkar það úrvalið í samkeppni um hæfa einstaklinga að binda forgangsröðun við kyn eða litarhátt. Til dæmis hafi Biden viljað fá svarta konu sem hæstaréttardómara en með slíkum kröfum voru hæfir hvítir karlmenn útilokaðir frá embættinu.

Spurninguna verður alltaf að setja í samhengi við þær kröfur sem gerðar eru til starfsins og síðan finna hæfa einstaklinga til að gegna þeim burtséð frá kyni og litarhætti. Í Bandaríkjunum hefur þeirri stefnu verið ýtt til hliðar, að koma samviskubiti á hvíta menn fyrir það sem forfeðurnir gerðu gagnvart lituðum á fyrri öldum. Mörg fyrirtæki hafa fleygt þessari stefnu fyrir róða, þar sem hún dregur úr samkeppnishæfni og leiðtogaeiginleikum sem nauðsynlegir eru í harðri daglegri samkeppni.

Vissi ekki hversu djúpt Ísland var sokkið

Íris greinir frá því, að hún hafi frétt af ræðu Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, sem gagnrýndi að kynjafræði er skyldufag í skólum allt niður í leikskóla! Hún vissi ekki að Ísland væri svo djúpt sokkið. Í Bandaríkjunum hefur blaðinu verið snúið við og gætu Íslendingar lært mikið af vinum okkar í vestri. Snorri benti á að Viðreisn sem segðist vera markaðssinnaður flokkur sé að taka við keflinu af „stjórnsömustu vinstriflokkum landsins.“ Stjórnmálaskalinn er allur skekktur orðinn og það sem áður taldist hægri er í dag orðið rammasta vinstri. Snorri Másson sagði í þingræðu sinni:

„Það veldur vonbrigðum að hinn yfirlýsti markaðssinnaði og frjálslyndi Viðreisnarflokkur hyggist taka við keflinu af stjórnlindustu vinstriflokkum hér í landi, þar sem hugsunin er sú að beita fullum mætti ríkisvaldsins til þess að tryggja að borgararnir lúti hugmyndafræðilegum áherslum stjórnmálamannanna í daglegu lífi.“ 

Í kynjafræðunum eru konur fórnarlömb og karlmenn gerðir tortryggilegir upp til hópa. Þeirri innrætingu er beint til drengja að þeir eigi að víkja fyrir konum og að karlmennska þeirra sé eitruð nema þeir „hugsi, tali og hagi sér nákvæmlega eins og kynjafræðingarnir mæla fyrir um.“

Íris Erlingsdóttir ætlar að nota tímann í heimsókninni til að kynna sér þessi mál betur og ræða við fólk. Verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu, þegar hún skrifar um þessi mál sem þarfnast grundvallarlegrar umræðu og skynsamlegra lausna.

Smelltu á spilarann hér að neðan til að hlýða á samtalið:

Fara efst á síðu