Vindorkuiðnaðurinn er efnahagslegt stórslys

Sænski vindorkuiðnaðurinn er rekinn með miklu tapi. Samkvæmt nýrri greiningu hagfræðinganna Christian Sandström og Christian Steinbeck, sem birt er í Ekonomisk Debatt, hefur vindorkuiðnaðurinn verið rekinn að meðaltali með 35% árlegu tapi sjö ár í röð.

Árið 2023 nam heildartap vindorkuiðnaðarins 4,6 milljörðum sænskra króna. Þrátt fyrir ríkulegar niðurgreiðslur í formi raforkuvottorða og upprunaábyrgða þá gengur ekki að koma rekstrinum á réttan kjöl. Skattgreiðendur borga brúsann í hærra raforkuverði.

Tapið er mest í Norður-Svíþjóð þar sem tveir þriðju hlutar fjárfestinga hafa farið fram. Þar var meðaltapið 65% á því tímabili sem rannsakað var.

Sandström og Steinbeck benda á að vindorkugarðar hafa verið reistir þar sem það hefur verið pólitískt mögulegt, frekar en að farið sé eftir efnahagslegum forsendum.

Þeir benda á að hönnuðir vindorkuvera hafi betri arðsemi en fyrirtækin sem eiga og reka vindmyllurnar.

Höfundarnir krefjast gagnrýninnar endurskoðunar á fjárhagslegum forsendum vindorkuvirkjana í Svíþjóð og vara við „grænni bólu“ í ljósi þess mikla opinbera stuðnings sem iðnaðurinn hefur fengið.

Núna hafa vitgrannar eftirhermur valdaelítunnar á Íslandi tekið upp sænska græna bólukeflið þar sem vindmyllufurstum verður leyft að sjúga peninga úr landsmönnum fyrir kaup og byggingu vindorkuvera og niðurgreiðslna skattgreiðenda á rekstrarkostnaði sem dugar samt engan vegin til eins og dæmin frá Svíþjóð sanna.

Fara efst á síðu