Viðvörun: Gæti orðið rafmagnslaust aftur á Spáni

Í lok apríl varð mikið rafmagnsleysi á Spáni og í Portúgal og spunnust miklar umræður um orsakirnar. Fljótlega varð ljóst að grænu umskiptin gætu hafa verið úrslitavaldur rafmagnsleysis hjá 60 milljónum manns. Núna vara umsjónarmenn spænska rafmagnsnetsins við því að það sama geti gerst aftur.

Við nánari athugun kom í ljós að um 1,3 gígavött af sólarorku voru aftengd frá raforkukerfinu á innan við sekúndu, löngu áður en nokkur stór bilun varð í raforkukerfinu. Skyndilegt framleiðslutap af þeirri stærðargráðu er nálægt mörkum þess sem raforkukerfið ræður við. Þvingaðar tíðnisveiflur frá sólarorku sáust einnig áður en byrjað var að aftengja hana, sem bendir til óstöðugleika og skorts á nauðsynlegum tækjum til að jafna álagið.

Fyrir nokkrum mánuðum sagði Jonas Kristiansen Nøland, raffræðiprófessor við Norska vísinda- og tækniháskólann (NTNU), að bandaríska orkumálaráðuneytið varaði við því að það gæti leitt til mikillar aukningar rafmagnsleysis að stöðva skipulagða framleiðslu án þess að skipta og tengja aðra framleiðslu við netið en það er einmitt það gerðist á Spáni.

Fyrir nokkrum dögum varaði REE, rekstraraðili rafmagnsnetsins á Spáni, við því að greinst hafi miklar spennusveiflur í kerfinu síðustu tvær vikur sem gæti haft áhrif á raforkuframboð landsins, eins og gerðist í apríl. Í skjali til markaðseftirlitsaðilans CNMC kallaði REE eftir skjótum tæknilegum breytingum til að forðast slík áhrif. CNMC tilkynnti á miðvikudag að það myndi hefja opinbert samráð á næstu dögum til að samþykkja brýnar bráðabirgðaráðstafanir til að koma á stöðugleika kerfisins áður en varanlegri lausn finnst.

Stærsta rafmagnsleysið í 20 ár

Í tilkynningu CNME segir:

„Samkvæmt upplýsingum sem rekstraraðili raforkukerfisins veitti CNMC gætu hraðar spennusveiflur síðustu tvær vikurnar, þrátt fyrir að spennan sé alltaf innan viðurkenndra marka, hugsanlega valdið truflunum í eftirspurn og/eða framleiðslu sem að lokum raskar stöðugleika raforkukerfisins.“

Evrópskir raforkuflutningskerfisstjórar skrifuðu í skýrslu síðastliðinn föstudag að hið gríðarlega rafmagnsleysi sem skall á Íberíuskaganum 28. apríl væri fyrsta þekkta rafmagnsleysið sem orsakaðist af of hárri spennu. Skýrslan benti á eins og fyrri rannsóknir, að spennuhækkun hefði orsakað stærsta rafmagnsleysi í Evrópu í meira en tvo áratugi. Borgir lömuðust og fólk varð strandaglópar í lestum í Portúgal og á Spáni.

Fara efst á síðu