Viðvörun frá Lundi: Mjög smitandi, ónæmar bakteríur koma frá Úkraínu

Ræktaðar Klebsiella bakteríur. (Mynd © Ajay Kumar Chaurasiya, CCA).

Vísindamenn við háskólann í Lundi hafa sent út viðvörun um fullkomlega ónæmar bakteríur frá stríðshrjáða Úkraínu. Ný rannsókn sýnir að bakterían Klebsiella pneumoniae er ekki aðeins ónæm fyrir öllum tiltækum sýklalyfjum – heldur einnig afar smitandi og sjúkdómsvaldandi.

Kristian Riesbeck, sem stýrði rannsókninni segir:

„Bakterían Klebsiella pneumoniae, sem er ónæm fyrir öllum sýklalyfjum, er líka sérstaklega árásargjörn og hættuleg.“

Rannsóknin byggir á sýnum frá 141 stríðssærðum sjúklingum í Úkraínu. Vísindamennirnir gátu séð að margar bakteríur voru ónæmar fyrir breiðvirkum sýklalyfjum og 6% allra sýna voru ónæm fyrir öllum sýklalyfjum sem þau voru prófuð gegn.

Vísindamennirnir birtu grein í Journal of Infection, þar sem greint er frá rannsókn á því, hvort bakterían Klebsiella pneumoniae hafi getu til að valda sjúkdómum í víðara samhengi. Klebsiella getur valdið þvagfærasýkingum, lungnabólgu, húðsýkingum í sárum og blóðsýkingu. Rannsakendur notuðu sýni úr 37 sjúklingum sem áður hafði verið sýnt fram á að væru með þessar ónæmu bakteríur. Allt erfðamengi bakteríanna var rannsakað til að kanna hvort þær hefðu gen sem getur valdið ónæmi fyrir sýklalyfjum. Kristian Riesbeck segir í fréttatilkynningu:

„Allar bakteríurnar reyndust bera gen sem við vitum að myndar ónæmi. Við sáum að fjórðungur þeirra var ónæmur fyrir öllum sýklalyfjum sem til eru á markaðnum, bakteríurnar eru þá sagðar fullkomlega ónæmar. Sýkingar af völdum þessara baktería verða mjög erfiðar og í sumum tilfellum ómögulegt að meðhöndla með þeim lyfjum sem við höfum í dag.“

Vaxandi áhyggjuefni heilbrigðisþjónustunnar

Vísindamennirnir höfðu áhuga á að kanna hvort bakteríurnar sem teknar voru úr sjúklingum í Úkraínu gætu borist áfram. Því voru gerðar tilraunir á músum og lirfum skordýra.

Í ljós kom að þær bakteríur sem voru ónæmastar fyrir sýklalyfjum voru líka þær sem döfnuðu best í músum með lungnabólgu. Einnig voru þessar bakteríur svo árásargjarnar, að þær drápu lirfurnar langtum hraðar en bakteríur sem ekki eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Ónæmar bakteríur bera gen sem gerir þær líka smitsamari en aðrar bakteríur. Kristian Riesbeck segir:

„Í mörgum tilfellum missa bakteríur getu sína til að smita og valda sjúkdómum vegna þess að öll orka fer í baráttuna gegn sýklalyfjum. En við höfum vanmetið þessar bakteríur; við sjáum að margar af þessum bakteríum frá Úkraínu eru með genum sem gera þær bæði ónæmar og smitandi.

Þar af leiðandi telur Kristian Riesbeck að bakteríurnar sem dreifast meðal særðra í Úkraínu muni að öllum líkindum halda áfram að lifa og valda vandræðum:

„Þetta mun ekki hverfa með tímanum. Á meðan ekki verður hægt að einangra sjúklinga fyrir skynsamlega meðhöndlun mun áframhaldandi útbreiðsla eiga sér stað.

Niðurstöðurnar eru ógnvekjandi en ekki óvæntar, að sögn Kristian Riesbeck, þetta er það sem gerist þegar innviðir heilbrigðiskerfisins hrynja. Það á bæði við í Úkraínu og á öðrum stríðshrjáðum svæðum um allan heim.

„Þrátt fyrir að þessar ónæmu bakteríur eigi í erfiðleikum með að lifa af sýklalyfjameðferðir okkar, þá hafa þær samt fullt sett af genum sem gera þær færar um að valda sjúkdómum. Það kemur okkur öllum á óvart og er því miður áhyggjuefni fyrir framtíðina.

Fara efst á síðu