Varnarsigur málfrelsis

Páll Vilhjálmsson, bloggari, blaðamaður og fyrrverandi kennari var sýknaður af ákæru Samtakanna 78 um hatursorðræðu fyrir að gagnrýna kynlífsfræðsluefni samtakanna í grunnskólum landsins. Hann segir að kalla megi sumt af efninu argasta klám og spyr, hvað sé eiginlega á bak við það að hvetja ókynþroska börn að mynda sig sjálf eða baka kökur í formi kynfæra fullorðinna.

Hann trúir ekki boðskap Samtakanna 78 að til séu fleiri kyn en tvö og byggir það á afstöðu fólks frá upphafi veraldarsögunnar að kynin séu líffræðileg og ákvarðast við fæðingu.

Það stangast á við boðskap transfólks sem segir kynvitund, eða huga fólks geta ákveðið hið líffræðilega kyn.

Héraðdsdómstóll Reykjavíkur skrifar í dómsorði sínu:

„Ákærði gaf sem fyrr segir í skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins og gaf þar ítarlegar og greinargóðar skýringar á ummælum sínum og afstöðu. Fór ákærði þar vandlega yfir hvern þátt ummæla sinna og setti ummælin í samhengi við þá umræðu sem í gangi var í samfélaginu á þeim tíma er ummælin voru látin falla. Það er mat dómsins að framburður ákærða hafi verið trúverðugur í skilningi 115.gr. laga nr. 88/2008.“

Páll vonast til að dómurinn hafi þau áhrif að fleiri þori að segja skoðanir sínar á Íslandi. Hinn valkosturinn yrði rétttrúnaðarsamfélag þar sem fólki yrði refsað fyrir að tjá skoðanir sem ekki fylgdu rétttrúnaði yfirvalda.

76 views

Fara efst á síðu