Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur segir frá heimsókn sinni til Íslands um páskana sem margir tóku eftir meðal annars vegna aðkomu hennar að fjölmiðlamálum þjóðarinnar. Hún hefur tekið til höndum í varnarbaráttu kvenna gegn því að líffræðilega fæddir karlar fái að ryðjast inn í búnings- og sturtuklefa kvenna og keppa í klassískum íþróttagreinum kvenna. Hún hefur skrifað fjölmargar greinar um málið og var núna síðast í Brotkasti hjá Frosta Logasyni að ræða þessi mál.
Málið hefur verið töluvert til umræðu, ekki síst vegna nýlegs dóms Hæstaréttar Bretlands sem gaf út þá sjálfsögðu niðurstöðu að kona væri kona.
Íris segir fjölmiðlalandslagið á Íslandi gjörbreytt frá því sem áður var. Hún styður frjálsa miðla sem þora að stunda alvöru blaðamennsku og segja sannleikann í stað ríkisstyrktra miðla sem sumir hverjir stunda pólitískan áróður og breiða út níð og slúður.
Einn hlutur fannst henni furðulegur. Þegar hún pantaði sér leigubíl til að ferðast innan Reykjavíkur kom mínirúta til hennar. Hún benti á að hún þyrfti ekki svo stóran bíl innanbæjar í Reykjavík en bílstjórinn útskýrði það með því að hann var næstur í röðinni. Umræðurnar héldu áfram og Íris spurði vegna allra ferðamanna í Reykjavík hverjir væru helstu viðskiptavinirnir.
Svar leigubílstjórans kom henni og eflaust mörgum með henni á óvart. Leigubílsstjórinn svaraði um hæl:
„Sýrlenskir öryrkjar eru helsti viðskiptavinurinn.“