Siðanefnd Háskóla Íslands hefur vísað frá (sjá pdf að neðan) formlegri kvörtun Elds Smára Kristinssonar, formanns Samtakanna 22 vegna ummæla Ernu Magnúsdóttur, dósents við læknadeild háskólans um að Eldur Smári væri „viðbjóðsleg padda sem aldrei mun læra að skammast sín.“
Fór Eldur Smári fram á það að Erna Magnúsdóttir yrði áminnt og látin biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum. Siðanefnd háskólans vísaði málinu frá á þeim grundvelli að hugsanlega gæti verið um ærumeiðingu að ræða sem geti „falið í sér brot gegn einstökum ákvæðum XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940“ og því bæri nefndinni ekki að taka erindi Elds Smára Kristinssonar til efnislegrar meðferðar. Vísaði nefndin málinu frá. Í öðrum málslið greinar 7.10 í siðareglum Háskólans segir „að sé um að ræða ágreining eða brot á lagareglum sem heyri undir aðila utan Háskólans þá vísar nefndin erindinu frá.“
Hvað merkir „utan“ Háskólans?
Spyrja má hvort þetta þýði að starfsmenn Háskólans geti móðgað fólk út í bæ eða gerst brotlegir við hegningarlög án afskipta siðanefndar Háskólans ef sá sem brotið er á tilheyrir ekki háskólanum? Þýðir „utan Háskólans“ starfsmenn Háskólans í deilum við aðra sem ekki eru annað hvort starfsmenn eða nemendur Háskólans? Hefði ekki verið eðlilegra að telja til dæmis rógburð, ærumeiðingar annarra en starfsmanna og nemenda hvað varðar háskólann og starfsemi hans, að slíkt félli undir „utan Háskólans?“
Samkvæmt þessari niðurstöðu er risið óeðlilega hátt fyrir starfsmenn háskólans að svívirða þá sem þeim mislíkar við eða hafa aðrar skoðanir, því viðkomandi verður fyrst að fara dómstólaleiðina til að fá dómsúrskurð um ærumeiðingu áður en siðanefndin tekur málið til efnislegrar meðferðar. Margir munu eflaust veigra sér við slíku, þar sem lögfræðikostnaður og réttarhöld eru ekki gefins. Spyrja má af hverju háskólinn er yfir höfuð með siðanefnd ef hún á fyrst að bregðast við, þegar almennir dómstólar hafa dæmt í málum sem varða framkomu starfsmanna háskólans við þriðja mann? Er það þá hlutverk siðanefndar að dæma hvort reka á viðkomandi starfsmann eða ekki miðað við dóminn?
Óskaði þess að Trump hefði verið myrtur

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Erna Magnúsdóttir hefur farið út fyrir eðlileg mörk starfs síns. Til dæmis skrifaði hún á Facebook að hún hefði óskað sér að „árásarmaðurinn hefði hitt“ þegar maður á þrítugsaldri hleypti fleiri skotum úr riffli sem hæfðu Trump þó ekki. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor emerítus segir ummælin vera „einhver viðbjóðslegustu hatursskrif“ sem hann hafi séð lengi og segir Ernu svipta Trump mennsku sinni með færslunni. Viðbrögðin við ummælum hennar hafa mörg verið á þennan veg skrifar Vísir.
Þjóðólfi er ekki kunnugt um að siðanefnd Háskóla Íslands hafi beðið Ernu Magnúsdóttur um að biðjast afsökunar á þessum ummælum sínum. Hugtakið viðbjóðsleg padda gefur til kynna óæskilegt líf sem megi traðka á og murka lífið úr án söknuðar eins eða neins.
Fyrst siðanefnd Háskóla Íslands gerir engar athugasemdir við þessar yfirlýsingar starfsmanns skólans má alveg eins snúa dæminu við og segja að siðanefndin sé raunverulega ósiðanefnd til að verja móðganir, ærumeiðingar, morðhótanir og dýravæðingu starfsmanna skólans á fólki utan Háskólans. Það er að segja þar til dómstólar út í bæ hafa dæmt viðkomandi starfsmann sekan.
En enginn veit, hvort það myndi neitt frekar duga til að vekja nefndina af siðleysissvefni sínum.