Á mánudaginn lækkuðu hlutabréfamarkaðir heims svo mikið, að sérfræðingar vara við hugsanlegu „hruni“ á mörkuðum. Nikkei-vísitalan í Tókýó lækkaði um 12,4%, sem er mesta lækkun síðan „Svarta mánudaginn“ árið 1987.
Spákaupmenn voru tilbúnir að selja í opnunarviðskiptum í morgun mánudag 5. ágúst. Óróleikinn á japanska hlutabréfamarkaðinum dró aðra fjármálamarkaði í Asíu með sér í fallinu.
Nikkei hefur fallið yfir 20% á rúmum mánuði
Að sögn Dagens industri eru ástæðurnar fyrir miklu falli hlutabréfamarkaðarins í Tókýó dökkar horfur í bandarísku efnahagslífi, hætta á útbreiðslu stríðsins í Miðausturlöndum og áhyggjur af áframhaldandi verðlækkun á hlutabréfamörkuðum í Japan.
Mánudagurinn í dag þýðir, að Nikkei 225 vísitalan hefur nú tapað meira en 20% í verðgildi síðan hámarki var náð þann 11. júní. Að sögn Gary Ng, yfirsérfræðings hjá Natixis banka í Hong Kong, er líklegt að áhyggjur af áframhaldandi lækkun japanska hlutabréfamarkaðsins verði viðloðandi.
Á tímabilinu janúar 2023 til júní 2024 keyptu alþjóðlegir fjárfestar japönsk hlutabréf fyrir tæplega níu þúsund milljarða króna. Er þetta eitt sterkasta tímabil í sögunni. „Leiðrétting” gæti því orðið sársaukafull.
Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn lækkaði
Stuttu eftir opnun á Wall Street lækkaði S&P 500 um 4,1% og Dow Jones um 2,8% Nasdaq vísitalan lækkar um sex prósent.
Flísasamsteypan Nvidia hrapaði um 15% sem samsvarar um 4.000 milljörðum sænskra króna tapi á markaðsvirði fyrirtækisins. Eftir veika efnahagsskýrslu féll Intel um 26% á föstudag og lækkaði um sjö prósent til viðbótar á mánudag.
Fullkomin uppskrift að hruni á mörkuðum
Stephen Innes, yfirmaður stefnumótunar hjá SPI Asset Management í Bangkok, segir að bandarískar atvinnutölur séu svo slæmar, að fólk gapi af undrun. Samfara glannalegri hegðun Seðlabanka Japans, veikburða efnahagsþróun í Kína og lélegri útkomu bandarískra tæknirisa, þá er „uppskriftin fullkomin að hruni á mörkuðum.“