Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður skrifar á Facebook síðu sinni um stjórnarmyndunarviðræður formannanna þriggja sem fara fyrir Samfylkingunni, Viðreisn og Flokki fólksins. Gerir Jón að umtalsefni að talað sé um þær Kristrúnu Frostadóttur, Ingu Sæland og Þorgerði Katrínsdóttir sem valkyrjur og margir ræða þar af leiðandi um næstu ríkisstjórn sem valkyrjustjórn takist þeim ríkisstjórnarmyndunin.
Jón Magnússon skrifar:
„En væri ekki réttara að kalla þær örlaganornirnar þrjár eftir þeim Urði, Verðandi og Skuld, þar sem ein horfir til fortíðar, önnur til nútíðar og sú þriðja til framtíðar. Spurning hvort að örlaganornirnar okkar nái að samþætta þetta í ákjósanlega ríkisstjórn.“
Í Wikipedíu er nornunum þremur lýst á eftirfarandi hátt:
Urður, Verðandi og Skuld eru þrjár skapanornir í norrænni goðafræði. Þær búa við Urðarbrunn sem stendur við eina af þrem rótum Asks Yggdrasils. Urður, Verðandi og Skuld ausa tréð vatni einu sinni á dag til að halda því frá að fúna eða visna.
Urður er myndgervingur fortíðarinnar, Verðandi nútímans, og Skuld framtíðarinnar. Þær stýra örlögum manna og hafa til þess langa þræði sem þær hugsa um af ýtrustu varfærni. Þegar kemur að því að maður er búinn með sinn tíma þá klippa þær á þráðinn og örlög viðkomandi eru ráðin.
Enginn veit enn hvað kemur upp úr pottinum, takist þessum þremur að bræða saman vinstri vellinginn og gæti útkoman allt eins orðið gleymd fortíð, glötuð nútíð og eintóm skuld. Yrði þar með klippt á þráð íslensku þjóðarinnar og örlög hennar ráðin. Alþjóðleg yfirnorn meginlandsins Esba hefur örlög nornanna þriggja í hendi sér og tengir gleymda fortíð, horfna nútíð og eintóma skuld við rætur Asks Yggdrasils og mun þá tréð fúna eða visna og ólíft í mannheimum.
Vonandi þarf ekki til þess að koma og þjóðin festist ekki í neinum nornaklóm sem kjósendur voru svo sannarlega ekki að óska eftir í nýafstöðnum alþingiskosningum.