Valkostur fyrir Þýskaland AfD sækir í sig veðrið

Þjóðverjar ganga til þingkosninga á morgun. Fáeinum dögum fyrir kosningar sýnir nýjasta könnun ZDF Politbarometer að kristilegi demókrataflokkurinn CDU/CSU tapar fylgi á meðan AfD sem gagnrýnir hömlulausan fólksinnflutning sækir stöðugt í sig veðrið.

Samkvæmt könnuninni, sem gerð var af Forschungsgruppe Wahlen, hefur CDU/CSU lækkað um tvö prósentustig miðað við fyrri viku og hefur núna 28%. Þrátt fyrir fylgistap er þetta samt meira en hörmuleg útkoma flokksins var árið 2021 þegar flokkurinn varð að sætta sig við 24,2%. Gangi skoðanakannanir hins vegar eftir verður þetta engu að síður ein verstu úrslit í sögu flokksins.

AfD ráðandi afl í forna Austur-Þýskalandi

Samtímis lítur út fyrir að AfD nái sínum glæsilegasta árangri nokkru sinni. Flokkurinn mælist með 21% sem er meira en tvöföldun miðað við síðustu kosningar en þá fékk flokkurinn 10,4%. Árangur AfD er sérstaklega áberandi í forna Austur-Þýskalandi, þar sem flokkurinn er orðinn ráðandi afl.

Það er ekki aðeins AfD sem fær aukið fylgi vegna víðtækrar óánægju með fráfarandi ríkisstjórn. Vinstriflokkurinn Die Linke hefur einnig aukið fylgið og nær nú 8% sem þýðir að þeir komast vel yfir 5% þröskuldinn.

Frjálslyndir, FDP, sem nýlega slitu samstarfi við sósíaldemókratíska SPD og umhverfisverndarsinna græningja, eiga á hættu að detta út af þingi. Sahra Wagenknecht, BSW, hjá vinstri flokki Bündnis, er einnig á mörkum 5% þröskuldsins, sem gerir framtíð flokksins óvissan.

Hvernig ný ríkisstjórn verður samsett er ekki ljóst fyrr en talið verður upp úr kössunum. CDU/CSU gætu stjórnað ásamt FDP en annars eru fáir raunhæfir möguleikar eftir. Friedrich Merz, kanslaraframbjóðandi CDU, ítrekar að „eldveggur“ ​​flokksins gegn AfD sé áfram traustur, jafnvel þó að CDU hafi nýlega greitt atkvæði með aðstoð AFD fyrir hertri innflytjendalöggjöf.

Kosningarnar fara fram á tímum mikillar kreppu í Þýskalandi. Efnahagslífið er á hnjánum, raforkuverð hækkar upp úr öllu valdi og hömlulaus fjöldainnflutningur heldur áfram á fullu. AfD fékk stuðning Elon Musks sem ræddi nýlega við flokksleiðtogann Alice Weidel á X. Verður fróðlegt að fylgjast með talningu eftir lokun kjörstaða annað kvöld.

Fara efst á síðu