Uppfærsla forrits olli hléi í útsendingu Þjóðólfs

Í gær stöðvaðist birting greina Þjóðólfs á netinu í nokkra tíma. Hægt var að sjá heimasíðuna en þegar ýtt var á fréttir og greinar kom upp villutilkynning. Ástæða bilunarinnar var uppfærsla á forriti í gagnagrunni Þjóðólfs snemma laugardagsmorgun og tók smá tíma að finna út hvað fór úrskeiðis við innsetningu forritsins. Þegar það kom í ljós var það samstundis lagað og Þjóðólfur birtist eins og venjulega aftur. Þetta er í annað sinn á rúmu ári sem birting hefur stöðvast. Í fyrra skiptið var einfaldlega um gleymsku á gjalddaga á léni að ræða sem leyst var á innan við klukkutíma og sjálfkrafa greiðslur tryggðar í framtíðinni.

Á tímum upplýsingastríðs þar sem myrkraveitur rétttrúnaðarins uppnefna alla þá sem segja sannleikann ljótum orðum er skiljanlegt að sumum detti í hug að um tölvuárás sé að ræða. Þjóðólfur hefur ekki lent í neinum tölvuárásum umfram þær hversdagslegu að gervigreind er notuð til að reyna að hakka lausnarorð til að komast í gagnagrunninn. Slíkar tölvuárásir eru framkvæmdar af öðrum tölvum og tölvuþrjótum linnulaust allan sólarhringinn, oft án neinnar annarrar ástæðu en að sjá hversu langt er hægt að komast. Einnig eru stöðugt árásir á veikleika allra forrita til að komast inn gegnum þau og gera usla. Heimasíðan er samstarf margra forrita sem vinna saman og eru frá ólíkum útgefendum sem uppfæra ekki í jöfnum takti. Þannig virkar Internet og þarf stöðugt að vaka yfir tækninni og sjá að allt virki rétt.

Konráð Pálmason vefstjóri Þjóðólfs frá upphafi

Þjóðólfur er rétt eins árs gamall og sá sem hefur verið trúr útgáfunni allan tímann og stutt með tæknilegu starfi og ráðum og dáð er vefstjóri Þjóðólfs, Konráð Pálmason, sem býr í Ástralíu. Þjóðólfur þakkar Konráði fyrir óeigingjarnt starf í þágu málstaðs íslensku þjóðarinnar í baráttunni gegn óvinum fullveldisins.

Fara efst á síðu