Umboðsmaður Alþingis þarf að árétta að ríkislögreglustjóri fari eftir lögum!

Fokið er nú í flest skjól, þegar áminna þarf sjálfan ríkislögreglustjórann, að hann eigi að fara eftir lögum! Merki lögreglunnar hefur um ár og tíð innihaldið orðin: „Með lögum skal land byggja.” Lögreglan breytti merki sínu og það án þess að kynna sér lögin sem gilda um slíka breytingu.

Ólafur E. Jóhannsson, blaðamaður Morgunblaðsins skrifar frétt um málið þann 23. júlí og skrifar m.a.:

„Ríkislögreglustjóri sætir ákúrum umboðsmanns Alþingis sökum þess að einkennismerki lögreglunnar, lögreglustjörnunni, var breytt í heimildarleysi og án stoðar í reglugerðum þar um, að því er fram kemur í bréfi umboðsmanns til ríkislögreglustjóra sem birt hefur verið á heimasíðu umboðsmanns.”

Lögreglan þarf að fara að þeim réttarreglum sem gilda eins og allir aðrir

Umboðsmaður telur tilelfni til að rifja upp fyrir ríkislögreglustjóra þá grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar að stjórnsýslan sé bundin af lögum:

„Ég tel þó ástæðu til þess að árétta mikilvægi þess að handhafar framkvæmdavalds, þ. á m. lögreglan, sem hefur með höndum það grundvallarhlutverk að halda uppi lögum og reglu í landinu, gæti að því í störfum sínum að fara að þeim réttarreglum sem gilda um starfsemi þeirra á hverjum tíma.”

Segir í lok fréttarinnar:

„Umboðsmaður klykkir í bréfi sínu út með því að beina þeirri ábendingu til embættis ríkislögreglustjóra að gæta framvegis að því að hrinda ekki breytingum í framkvæmd, áður en viðeigandi breytingar hafi verið gerðar á þeim réttarreglum sem við eiga.”

Fara efst á síðu