Um helmingur verslana í Svíþjóð verða fyrir glæpum

45% verslana urðu fyrir þjófnaði, hótunum eða ofbeldi í tengslum við þjófnað, innbrot, ógnandi hegðun eða ýmsum svikatilraunum á þriðja ársfjórðungi 2024. Sænsku verslunarsamtökin benda á, að glæpaástandið sé orðið hluti af daglegu lífi margra verslana.

Þótt 45% sé lækkun um fimm prósent miðað við fyrri ársfjórðung er samt um fjögurra prósentu aukningu að ræða samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Nina Jelver, yfirmaður öryggismála hjá sænsku verslunarsamtökunum segir:

„Það er ljóst að sú dökka þróun sem við höfum séð í langan tíma heldur áfram. Verslunin verður fyrir miklum glæpum sem er óhugnanlegt og hefur afleiðingar í för með sér til almennings litið til lengri tíma. Verslanir og þjónusta sem þykir sjálfsögð eiga á hættu að hverfa vegna þess hversu glæpatíðnin er mikil.”

21 milljarðar sænskar kr. vegna búðarrána, þjófnaðar og öryggiskostnaðar lenda á viðskiptavinum

Þjófnaður er mikið vandamál. Á þriðja ársfjórðungi sagði rúmlega einn af hverjum þremur kaupmönnum að þeir hefðu orðið fyrir þjófnaði í síðustu viku. Einn af hverjum fjórum kaupmönnum hefur upplifað ógnandi hegðun frá gestum eða viðskiptavinum síðasta mánuðinn.

Nina Jelver heldur áfram:

„Verðmætum fyrir 10,5 milljarða sænskra króna er árlega stolið í sænskum verslunum. Jafn miklu er varið í öryggisráðstafanir. Þetta er kostnaður sem margir kaupmenn eiga erfitt með að bera. Á endanum lendir þetta á viðskiptavinum í hærra verði og minna vöruúrvals. Þjófnaður er samfélagslegt vandamál í dag.”

Allt of fáir kaupmenn kæra þjófnað til lögreglunnar

Verslunarsamtökin verða með öryggisviku til að ræða þetta ófremdarástand dagana 21. – 27. október. Í könnun ráðsins meðal kaupmanna kemur í ljós að einungis 63% kaupmanna tilkynna þjófnað í búðum sínum. Samtökin vilja að kaupmenn kæri allan þjófnað í búðum sínum til þess að öryggisvandi verslana komist hærra á blað stjórnmálanna. Nina Jelver segir:

„Þetta er aðalþema öryggisvikunnar í ár sem stendur yfir 21.-27. október. Skilaboð okkar til allra verslanafyrirtækja eru skýr. Til þess að hin brýna spurning um glæpi gegn verslunum komist ofar á dagskrá löggjafans, þá er nauðsynlegt að hversdagslíf verslana endurspeglist einnig í tölfræðinni. Tilkynnið alla glæpi!”

Hér að neðan má lesa á sænsku um niðurstöðu könnunar verslunarsamtakanna fyrir þriðja ársfjórðung í ár:

Fara efst á síðu