Úkraínustríðið er versta blóðbað sem heimurinn hefur séð eftir seinni heimsstyrjöldina

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur fengið nóg af Úkraínustríðinu. Það kom fram á blaðamannafundi sem hann hélt í Flórída í gær (sjá YouTube að neðan). Trump ræddi meðal annars um Úkraínustríðið og Miðausturlönd.

Að sögn Trumps er núna nóg komið. Úkraínustríðið verður að stöðva.

Líkin eru í hrönnum

Hann sagði:

„Allir eru drepnir. Þetta er versta blóðbað sem heimurinn hefur séð frá síðari heimsstyrjöldinni. Ég hef séð myndir af ökrum þar sem lík liggja ofan á líkum. Þetta lítur út eins og gamlar myndir frá borgarastyrjöldinni þar sem líkin lágu bókstaflega út um allt. Ef þið hefðuð séð þessar myndir þá væru tilfinningar ykkar fyrir þessu sterkari. Þetta verður að taka enda.

„Við munum ræða við Pútín forseta og við munum ræða við fulltrúana, Zelensky og fulltrúa Úkraínu. Það verður að stöðva þetta, þetta blóðbað!“

Mikil mistök að leyfa að flugskeytum væri skotið 200 mílur inn í Rússland

Trump sagðist einnig hafa rætt við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og virðist sannfærður um að vandi Mið-Austurlanda verði leystur en Úkraínustríðið sé „erfiðara“ viðureignar:

„Ég tel það vera erfiðara. Þeir hefðu aldrei átt að leyfa að flugskeytum væri skotið 200 mílur inn í Rússland. Það var slæmt… Það leiddi til mjög slæmra hluta. Það hefði ekki átt að leyfa það. Sérstaklega ekki vikum áður en ég tek við. Af hverju gerðu þeir það án þess að spyrja mig hvað mér fyndist? Ég hefði ekki látið þá gera það. Það voru mjög mikil mistök.“

Sjá má allan blaðamannafund Trumps í gær á myndskeiðinu hér að neðan:

Fara efst á síðu