Úkraínumenn reiðir vegna yfirlýsinga ESB um að halda stríðinu áfram

Bruno Kahl, yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar og Júlía Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu.

Yfirlýsingar margra leiðtoga í Evrópu um að stríðið í Úkraínu verði að halda áfram, til að bjarga Evrópu frá árás Rússa, vekja reiði í Úkraínu. Euromaidan press greinir frá.

Ástæðan er ekki síst viðtal við yfirmann þýsku leyniþjónustunnar, Bruno Kahl, í þýska DW í byrjun mars í ár. Hann var spurður um Úkraínustríðið, sem lýst er sem „blendingsstríði“ fyrir Þýskaland ásamt spurningum um öryggisástandið í Evrópu.

Munu láta reyna á fimmtu greinina

Kahl fullyrðir meðal annars að Rússland muni vilja „láta reyna á 5. greinin Nató“ hugsanlega með því að ráðast á Nató-ríki einhvern tímann á næsta áratug; á árunum 2030 – 2040. Það þýðir að stríðið í Úkraínu haldi áfram í mörg ár í viðbót. Bruno Kahl segir:

„Ef stríðinu í Úkraínu lýkur fyrr þá getur Rússland beint herafla sínum hraðar að Evrópu. Þá geta hótanir eða fjárkúgun komið fyrr en reiknað er með. Allt hangir þetta saman, skjótur endir á stríðinu í Úkraínu losar um afl til að beita gegn Evrópu.“

Yfirlýsingar um að stríðið í Úkraínu verði að halda áfram, til að gefa ESB meiri tíma til að undirbúa sig fyrir stríð gegn Rússlandi í framtíðinni, skapa eins og búast má við mikla reiði í Úkraínu. Júlía Tímósjenko, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, er ein þeirra sem reiðist og hún skrifar með hástöfum í færslu á Facebook:

„EF STRÍÐINU Í ÚKRAÍNU VERÐUR LOKIÐ FYRIR 2030, GÆTI RÚSSLAND BEITT HERAFLA SÍNUM TIL ÁRÁSA Á EVRÓPU FYRR EN BÚIST MÁ VIÐ.“

„Hefur einhver ákveðið að verðið fyrir að „veikja“ Rússland – fyrir öryggi Evrópu – skuli greitt með tilvist Úkraínu og lífi hundruða þúsund Úkraínumanna? Ég hélt ekki að nokkur myndi þora að segja þetta svona opinberlega og opinskátt… Það skýrir margt…“

Munu ráðast á Nató-ríki undir öllum kringumstæðum

Tímósjenkó er ekki ein um að bregðast við yfirlýsingum Bruno Kahl. Andriy Kovalenko, yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar gegn rangfærslum, hafnar röksemdafærslu þýsku leyniþjónustumannsins á Telegram:

„Ég er vel að mér í rússnesku sálfræðinni – og þeir munu ráðast á Nató-ríki óháð okkur, svo lengi sem ykkur skortir afl.“

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, er annar leiðtogi á Vesturlöndum sem hefur varað við of skjótum friðarsamningum í Úkraínu. Hún sagði fyrr á árinu:

„Við eigum hættu á að vopnahlé leiði ekki til friðar heldur setji önnur Evrópulönd og Úkraínu í enn hættulegri stöðu. Rússland gæti notað vopnahléð – ef það gerist á röngum forsendum – til að safna liði, byrja upp á nýtt og ráðast á nýtt land.“

Fara efst á síðu