Lögreglumaður á vettvangi í Partille í morgun. (Skjáskot SVT).
Ástandið í Svíþjóð fer stöðugt versnandi og fer að minna á stríðshrjáð land. Þótt enn sé ekki um eyðileggingu í stórum stíl eins og fylgir „alvöru” stríðum, þá eru sálfræðilegu afleiðingar glæpaofbeldisins í Svíþjóð þær sömu. Fólk er hrætt og veit ekki hvað það getur gert. Í nótt og klukkan hálf sjö í morgun sprungu tvær sprengjur við íbúðarhús á tveimur stöðum í Gautaborg. Enginn særðist líkamlega en í öðru húsinu var þriggja barna fjölskylda.
Sænska sjónvarpið SVT greinir frá því að handsprengja hafi verið sprengd í húsahverfi miðsvæðis í Angered. Thomas Fuxborg hjá lögreglunni sagði að tveir fullorðnir og þrjú börn voru í húsinu og væru dauðhrædd en líkamlega ósköðuð. Tilkynning barst um sprenginguna sem heyrðist víða að. Rúður brotnuðu og einn íbúi sagði við SVT:
„Þetta var skelfilegt, ég hef búið hér í níu ár og ekkert þessu líkt hefur gerst áður.” Annar íbúi sagði: „Ég heyrði þegar þetta gerðist. Börnin vöknuðu á undan mér, ég opnaði gluggana og sá lögregluna. Þetta er absúrd.”
Önnur sprengingin á Gautaborgarsvæðinu
Aðeins nokkrum klukkustundum áður varð sprenging í fjölbýlishúsi í Partille. Jafnvel í því tilviki grunar lögregluna að um handsprengju sé að ræða. Thomas Fuxborg, blaðafulltrúi lögreglunnar segir að lögreglan rannsaki málið og hvort um tengsl sé að ræða milli þessara tveggja sprengjuárása.
Nokkrir hafa verið færðir til yfirheyrslu vegna sprenginganna en enginn er að svo stöddu grunaður um neinn glæp.