
Íris Erlingsdóttir skrifar:
Trump: ljótur kall – Zelensky: góður kall
„Frétta“ flutningur vestrænna fjölmiðla er á forskólastigi
„Frétta“ flutningur vestrænna fjölmiðla af fundi Trumps Bandaríkjaforseta með Vladimir Zelensky, forseta Úkraínu, er allur á einn veg: löðurmælgi og lygar. Um Zelensky annars vegar og Trump hins vegar. Ég efast um að einn einasti aðgerðasinni starfandi á þessum fjölmiðlum hafi haft fyrir að horfa eða hlusta á allar 54 mínútur fundarins til að geta flutt fréttir af hvað í raun fór þar fram.
Hið sama er að segja um viðbrögð evrópskra leiðtoga. Allur vinstri vængur Vesturlanda fékk sendan sama sálminn og söng í kór. Forsætisráðherra Íslands Kristrún Frostadóttir fullvissaði félaga sína í heimsvaldasinnabandalaginu (ESB) að þrátt fyrir að Ísland hefði hvorki vopn né her, hefðu hún og kollegar hennar í ríkisstjórn Íslands blóðmjólkað 3.6 milljarða úr íslensku þjóðinni til að sýna samstöðu með Úkraínu. „Evrópuþjóðir hafa í dag lýst yfir stuðningi við Úkraínu––líka Ísland,” sagði einn bandarískur fréttaskýrandi og bætti við háðslega „og við vitum að Ísland er meiri háttar ‘player’ í utanríkismálum í heiminum.“
Sameiginlega sálmabókarútgáfan er á þá leið að Trump og Vance eiga að hafa skipulagt að veita Zelensky „fyrirsát.“ Þið vitið, Trump og Vance „sátu fyrir“ honum í 40 mínútur og reiddu hann til reiði svo þeir gætu eyðilagt samning sem þeir höfðu unnið að í margar vikur. Líklegt, er það ekki?
Þessi fundur snerist um undirritun fjárhagslegs samnings, sem kæmi á undan raunverulegum friðarsamningi, sem Bandaríkin myndu svo nota í samningaviðræðunum til að enda stríðið sjálft. Samningurinn um þessa fjárhagslegu. hagsmuni, sem mikil vinna hafði verið lögð í––af Trump, Vance, Marco Rubio utanríkisráðherra og starfsfólki hans––var tilbúinn til undirritunar. Það eina sem Zelensky þurfti að gera var að fylgja áætluninni sem samið hafði verið um––mæta (með bindi eður ei), brosa, segja takk, undirrita samninginn og snæða hádegisverð eins og samið hafði verið um.
Á fyrstu mínútum fundarins segir Zelensky að hann muni „ekki gefa neitt eftir til Pútíns.“ Um 24 mínútur inn í fundinn leggur Trump áherslu á að hann vill vopnahlé, en Zelinsky segir, „ég vil fyrst öryggistryggingu“ Þ.e., hann vill eins konar 5. greinar NATÓ vernd––ef ráðist er á Úkraínu vill hann hernaðarvernd Evrópu og Bandaríkjanna, hermenn á vettvang. Þetta er mál sem Trump telur ekki viðeigandi að ræða í beinni útsendingu fyrir framan fjölmiðla og… Pútín, sem án efa er að fylgjast með úr 6,000 mílna fjarlægð––en það sem meira er, þetta hefur ekkert að gera með samninginn sem er tilbúinn til undirritunar. Sá samningur endurspeglar það ferli sem Bandaríkin hafa farið eftir frá upphafi––hvort sem um var að ræða WWII, Japan, Ísrael, Taiwan eða Úkraínu––þegar þeir undirbúa öryggisáætlanir erlendis: að leggja grundvöll að stofnun efnahagslegra hagsmuna í viðkomandi landi, svo Bandaríkin hafa beina hagsmuni af því að tryggja öryggi viðkomandi ríkis (viðvera Bandaríkjanna þýðir í þessu tilviki að ekki þarf að reisa Ramstein 2 rétt við landamæri Rússlands). Trump segir, við ræðum þetta ekki; samningur um vopnahlé verður ekki gerður í beinni útsendingu, þannig eru hlutirnir ekki gerðir.
Þegar u.þ.b. 40 mínútur eru liðnar af fundinum segir fréttamaður við Trump að hann sé of „í takt við Pútín“ og spyr hvort það þýði að hann styðji Pútín. Trump segir, „ef ég væri ekki ‘í takt’ við báða aðila, yrði enginn samningur gerður. Á ég að segja hræðilega hluti um Pútín og segja síðan, ‘hey, Vladimir, hvernig gengur með samninginn?’ Þetta virkar ekki þannig.“
Nú fer að hitna í kolunum. Fram að þessu hafa samræðurnar gengið nokkuð hnökralaust, en nú byrjar Zelinsky að rekja stríðssögu undanfarinna tíu ára––margir vopnahléssamningar hafi verið undirritaðir en Pútín hafi gengið á bak orða sinna og honum sé ekki treystandi. Zelensky spyr J.D. Vance hvað hann „eigi við með samningaviðræðum?“ og Vance svarar, „Ég er að tala um samningaviðræður af því tagi sem munu stöðva tortímingu lands þíns… Þú ert að segja að okkar leið að fara efnahagslega samningaleið til að enda þetta stríð sé ekki góð og trúverðug stefna… þú vilt Bandaríkjaher og heri Evrópu… þú ert að biðja um inngöngu í NATÓ… og lýsa yfir efasemdum um að Bandaríkin vilji enda þetta [stríð] með samningaviðræðum.“
Og nú er fjandinn laus úr böndunum fyrir framan heimspressuna. Zelensky segir, „… á stríðstímum eiga allir við vandamál að stríða, jafnvel þið, en þið hafið fínt haf og finnið ekki fyrir neinu núna, en þið munið finna fyrir því í framtíðinni.“ Ótrúleg staðhæfing frá Zelinsky! Hvað á hann við? Að Bandaríkin eigi eftir að finna fyrir „áhrifum“ Rússa? Eða Bandaríkin eiga eftir að finna fyrir „áhrifum“ leiðtoga Vesturlanda, sem Zelensky er að halda þessa sýningu fyrir? Ef hann á við það síðara, hefur hann ekki tekið með í reikninginn að Trump og Vance er nákvæmlega sama hvað öðrum leiðtogum finnst um þá.
Nú byrja hróp og köll. Trump segir að Zelensky sé að gera mistök – „screwing around“––með því að krefjast þess að Evrópa og Bandaríkin stilli upp herjum sínum gegn Rússlandi, sem gæti valdið því að Rússar notuðu kjarnorkuvopn sem gæti leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar. „Held ég að Pútín vilji nota kjarnorkuvopn? Nei, en ef þú ferð að stilla upp herjum Vesturlanda gegn Rússlandi, sem gæti valdið því að Rússar dragi Kína inn í baráttuna, það mun valda meiri háttar vandamálum.“
Loks ákveður Trump að binda enda á viðræðurnar og segir, „kannski hefðum við ekki átt að gera þetta fyrir framan [fjölmiðla]. Ég er viss um að þetta er ágætis sjónvarpsefni… en við erum búnir í bili þar til þú ert reiðubúinn að koma og tala dálítið um frið.“
Samningaviðræður um vopnahlé eiga ekki að fara fram, eins og Trump sagði, í beinni útsendingu, heldur á bak við lokaðar dyr. Zelinsky byrjaði hins vegar að tala um atriði og krefjast svara við spurningum sem höfðu ekkert með fjárhagssamninginn að gera. Hann hóf samningaviðræður um stríðið sjálft fyrir framan fjölmiðla, í beinni útsendingu og Trump neitaði að taka þátt í þeim skrípaleik. Zelinsky hefur vafið leiðtogum Evrópu um fingur sér og er vanur því að fólk komi fram við hann eins og rokkstjörnu. Málið er að bæði hann og Trump eru prímadonnur, en í þessari sýningu er aðeins pláss fyrir eina dívu. Að þramma inn í innsta helgidóm forsetans eins og Gréta Thunberg––a la „þið hafið stolið draumum okkar“––myndi e.t.v. imponera leiðtoga Evrópu. Ekki Trump.
Hér að neðan má sjá myndband af öllum fundinum í Hvíta húsinu og einng viðtal við Maro Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna: