Tjáning, hatur og hinseginfáni lögreglu

Páll Vilhjálmsson, blaðamaður, bloggari, fyrrum kennari skrifar á blog.is um mismunun yfirvalda á kærum um hatursorðræðu, þar sem sumir fái flýtimeðferð en aðrir látnir bíða, jafnvel þótt um augljósa hatursorðræðu gegn minnihlutahópum sé að ræða. Hann vitnar einnig í greinaskrif Íris Erlingsdóttur á Þjóðólfi en hún tók viðtal við bandarískan lögfræðing og spurði um afstöðu hans til málaferla Samtakanna 78 gegn Páli Vilhjálmssyni.

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Bandarískur lögfræðingur undrast réttarfarið á Íslandi þar sem lögregla í verktöku fyrir Samtökin 78 ákæra mann og annan fyrir að andmæla transáróðri í leik- og grunnskólum. Sá bandaríski segir:

Ég skil ekki hvernig þetta komst á ákærustig, í alvöru. Í Ameríku yrði þessu hent út… eitt er ef Páll væri að kalla S78 nöfnum og saka þá um glæpi, en hann er ekki að gera það. Hann er að segja að þetta efni sé óviðeigandi fyrir börn og það er gott að hann segir það, vegna þess að mig grunar að svo sé. Það er fullkomlega viðeigandi að segja að það að sýna börnum á þessum aldri svona efni sé óviðeigandi af þessum ástæðum og eins og ég sagði, þú getur fengið vísindaleg gögn fyrir því…

Eina ástæðan fyrir því að þetta mál komst svona langt hlýtur að vera sú að íslenska ákæruvaldið er mannað aðgerðasinnum.

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður furðar sig einnig á háttsemi lögreglu þegar kemur að kærum vegna hatursorðræðu. Einar kærði eftirfarandi ummæli sem maður búsettur hér á landi, Ibaa Ben Hosheyeh, viðhafði á opinberum vettvangi:

Drepið gyðingana hvar sem þið finnið þá, rífið þá á hol, mígið á þá [og] lík þeirra […] Ég sver að við munum dæma þá við hlið Paradísar. Bölvun hvíli á sonum Síons, sonum apa og svína.

Þeir sem kunna að lesa sjá að þarna er á ferðinni skefjalaust hatur í garð minnihlutahóps, gyðinga. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Halla Bergþóra Björnsdóttir, er ekki byrjuð að rannsaka hatursummælin sem Einar kærði. En Halla Bergþóra var fljót til þegar Samtökin 78 kærðu gagnrýni tilfallandi á transboðskap í skólum og skrifaði út ákæru. Einar skrifar grein í Morgunblaðið um helgina og ber málin tvö saman. Niðurstaða hans:

Lögreglustjórinn á höfuðborgar svæðinu tekur ekki málefnalega afstöðu til kærumála. Halla Bergþóra misbeitir valdi sínu og handvelur mál sem henni eru þóknanleg.

Misþyrming lögreglunnar á réttlætinu er ekki bundin við höfuðborgarsvæðið. Samtökin 78 kærðu Helgu Dögg Sverrisdóttur fyrir sömu sakir og tilfallandi, að gagnrýna trúboð lífsskoðunarfélagsins. Helga Dögg heldur úti Moggabloggi. Hún er ekki enn ákærð, en hefur verið kölluð til yfirheyrslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra og er með stöðu sakbornings. Í gær birti Helga Dögg mynd af lögreglustöðinni þar sem hinsegin fáninn var dreginn að húni, einn fána. Í Facebook-færslu skrifar Helga Dögg:

Ég velti fyrir mér af hverju lögreglan flaggi fána kæranda í sakamáli.Ég er ein þeirra sem trans Samtökin 78 kærðu til lögreglu og vitna til sömu lagagreinar og í máli Páls Vilhjálmssonar. Hann var sýknaður. Enn hefur ekkert heyrst frá löggunni sem hefur tekið sér mjög rúman tíma til að skoða málið. Hins vegar finnst mér vafasamt að lögregla sem gerir svona sé hlutlaus. Óttast verulega að ég fái ekki réttláta málsmeðferð þegar lögreglan sýnir afstöðu sína á þennan hátt.

Lögregla sem ákærir trekk í trekk í þágu Samtakanna 78 og flaggar fána lífsskoðunarfélagsins er tæplega hlutlaust og málefnalegt yfirvald.

Líkt og flestar opinberar valdastöður eru æðstu embætti lögreglunnar í höndum kvenna. Ríkissaksóknari, sem leiðbeinir lögreglu um hverja skuli ákæra, er kona. Kynsystir þeirra, en líklega ekki skoðanabróðir, er Íris Erlingsdóttir. Í Þjóðólf skrifar Íris að Eitruð kvenlægni er stjórnsýsluvandamál. Íris sendir í leiðinni karlpeningi pillu:

Íslenskir karlmenn – ungir sem miðaldra, brjálaðir sem óbrjálaðir – eru hins vegar ófærir um að sýna eitraða karlmennsku eða karlmennsku yfirleitt. Til þess þarf testósterón, sem löngu er búið að berja úr þeim.

Konur fara með æðstu völd; kona brýnir kúgaða karla til uppreisnar gegn duttlungum valdakvenna og óreiðunni sem fylgir. Frjálslyndi pendúllinn slær tilbaka. Áhugaverðir tímar.

Fara efst á síðu