Tillaga á þýska þinginu um að banna Valkost fyrir Þýskaland

Valkostur fyrir Þýskaland, AfD, hefur blússandi vind í seglin. Hann mælist ýmist stærsti stjórnmálaflokkur Þýskalands eða sá næst stærsti. En í stað þess að taka málefnaslaginn og treysta kjósendum fyrir að velja það sem er réttast, þá leita stjórnmálaandstæðingar Valkosts fyrir Þýskaland leiða til að banna flokknum að taka þátt í kosningunum.

Þessi nýjasta tilraun til að stöðva og banna AfD kemur meðal annars frá sósíaldemókratísku stjórnmálakonunni Carmen Wegge, sem hefur lagt fram tillögu á þinginu um að banna þáttöku Valkosts fyrir Þýskaland í kosningunum. Wegge leiðir þverpólitískan hóp og hún hvetur alla þingmenn til að styðja tillöguna.

Málið verður rætt á þinginu í næstu viku en tillagan gerir ráð fyrir að sambandsþingið ákveði að hefja málsmeðferð um bann á Valkosti fyrir Þýskaland. Samþykki þingið tillöguna verður slík umsókn send til stjórnlagadómstólsins í Karlsruhe til úrskurðar. Gefur stjórnlagadómstóllinn grænt ljós, þá framfylgir þingið banninu. Stjórnlagadómstóllinn þarf að sanna að Valkostur fyrir Þýskaland hafi á virkan hátt gerst brotlegur og vinni gegn lýðræðisskipan þýska ríkisins.

100 þingmenn að baki tillögunni

100 þingmenn úr mismunandi flokkum lögðu tillöguna fram í nóvember. Í henni er fullyrt meðal annars, að AfD virði ekki mannréttindi farandfólks, fatlaðra og hinsegin fólks og að flokkurinn vilji koma á þjóðernisríki og geri lítið úr glæpum nasista.

Fara efst á síðu